Helgarsprokið 13. apríl 2003

103. tbl. 7. árg.

Lækkun skatta er orðin eitt helsta kosningamálið fyrir þingkosningarnar í næsta mánuði. Þetta er gleðiefni og gefur vonir um að skattar muni lækka á næsta kjörtímabili, að minnsta kosti ef þeir sem þá ráða standa við fyrirheitin. Í umræðunni hefur meðal annars verið vísað til Bandaríkjanna og einstaka maður hefur gengið svo langt að halda því fram að hugmyndir um skattalækkun hér á landi séu afleitar vegna þess að hugmyndir Bush um skattalækkun í Bandaríkjunum séu afleitar. Nú er það svo að hægt er að líta til reynslunnar í þessu efni, hér á landi, í Bandaríkjunum og víðar. Þessi reynsla hefur sýnt að skattalækkunum fylgir meiri hagvöxtur en ella og þess vegna koma skattalækkanir sér vel fyrir alla.

„Til að ná fram sem mestum jákvæðum áhrifum af skattalækkunum þurfa skattalækkanir að hvetja sem mest til aukinnar framtakssemi. Þess vegna valda hugmyndir um skandinavískt fjölþrepakerfi í tekjuskatti einstaklinga áhyggjum, en slíkt kerfi er alræmt fyrir að letja menn til vinnu í stað þess að hvetja þá.“

Nýlega var rituð grein í Washington Times um skattalækkunarhugmyndir Bush og reynsluna sem Bandaríkjamenn hafa af skattalækkunum í tíð Reagans. Í greininni kemur fram að þeir sem gagnrýndu Reagan fyrir að ætla að lækka skatta héldu því fram að lækkunin mundi leiða til meiri verðbólgu og hærri vaxta. Reagan sagði hins vegar að skattalækkun mundi auka hagvöxt og bæta lífskjör. Reagan var kjörinn forseti árið 1980 og á árunum 1980 til 1984 lækkaði verðbólga úr 12,5% í 3,9%, vextir lækkuðu og hagvöxtur var 7,3% árið 1984 en hafði verið neikvæður um 0,2% árið 1980, eftir að Bandaríkjamenn höfðu notið stjórnvisku Carters í fjögur ár. Carter stendur sem kunnugt er vinstra megin í bandarískri pólitík og hafði enga trú á skattalækkunum til að örva efnahagslífið og bæta þannig kjör landsmanna.

Reagan lækkaði skatta svo um munaði, hæsta þrep tekjuskatts einstaklinga fór til að mynda úr 70% í 28% í stjórnartíð hans, og munurinn í hagvexti og þar með velferð almennings í Bandaríkjunum var gífurlegur. Næstu sjö ár eftir skattalækkunina var hagvöxturinn yfir 50% meiri en næstu sjö ár á undan. Þetta er nokkuð sem gleymist stundum í umræðunni um skatta hér á landi, ekki síst þegar verið er að reikna út „kostnaðinn“ af skattalækkunartillögunum sem stjórnmálaflokkarnir leggja fram. Nú er sú hugmynd út af fyrir sig furðuleg að tala um kostnað vegna skattalækkunar. Þeir sem leggja áherslu á þá hlið skattalækkunarinnar hljóta að álíta að ríkið eigi allt sem almenningur aflar en leyfi almenningi náðarsamlegast að halda nokkrum hluta tekna sinna eftir. Ef ríkið innheimtir 38,55% tekjuskatt má sennilega draga þá ályktun að kostnaðurinn sé 61,45%, því ríkið gæti jú haldið öllum tekjum manna í stað þess að leyfa mönnum að halda hluta þess sem þeir afla. Vitaskuld er það svo að skattalækkun getur aldrei talist kostnaður, þvert á móti. Skattar eru kostnaður fyrir þá sem eiga peningana sem teknir eru í ríkissjóð og skattahækkun er dæmi um aukinn kostnað en skattalækkun dregur úr kostnaðinum. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga í umræðum um skattalækkanir, en hitt er ekki síður mikilvægt vegna þeirrar umræðu sem fram fer, að benda á, að skattalækkun mun hafa í för með sér aukinn hagvöxt og þar með auknar tekjur bæði fyrir einstaklingana og ríkið.

Til að ná fram sem mestum jákvæðum áhrifum af skattalækkunum þurfa skattalækkanir að hvetja sem mest til aukinnar framtakssemi. Þess vegna valda hugmyndir um skandinavískt fjölþrepakerfi í tekjuskatti einstaklinga áhyggjum, en slíkt kerfi er alræmt fyrir að letja menn til vinnu í stað þess að hvetja þá. Ástæðan er sú að fjölþrepakerfi fylgir jafnan afar hár jaðarskattur, það er að segja launamenn lenda mjög fljótt í háu skattþrepi, jafnvel áður en þeir geta talist hafa náð meðallaunum. Hver viðbótarkróna sem menn vinna sér inn verður þannig skattlögð af miklum þunga, um eða jafnvel langt yfir 50%, sem þýðir að hvatinn til vinnu er lítill. Nema að vísu til svartrar vinnu, en afleiðingin af fjölþrepa skattkerfi er meðal annars sú að hvatinn til svartrar atvinnustarfsemi eykst stórum.