Í nýrri skýrslu um menntamál í Evrópu, Key Data on Education in Europe 2002, er meðal annars að finna upplýsingar um útgjöld til menntamála í álfunni. Þar greinir frá því að á árunum 1996 til 1999 hafi útgjöld til menntamála hér á landi vaxið úr 13,1% af heildarútgjöldum hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, í 14,5%. Með þessari útgjaldaaukningu komst Ísland í fremstu röð, er jafnt Danmörku og einungis Kýpur ver hærra hlutfalli opinberra útgjalda til menntunar. Ef marka má umræðu um menntamál hér á landi fagna sumir líklega þessum tölum og telja þær til marks um að verið sé að mennta íslensk ungmenni betur en flest önnur. Samhengið milli útgjalda og árangurs er þó langt því frá jafn einfalt og oft mætti ætla af umræðum, og um menntun gildir hið sama og um allt annað, hægt er að eyða fé út og suður án þess að fá mikið fyrir. Þegar verst lætur getur aukinn fjáraustur jafnvel dregið úr gæðum þess sem keypt er, og þegar eyðslan er orðin með því mesta sem þekkist er full ástæða til að staldra við og íhuga hvort ekki má með einhverju móti spara eina krónu hér og aðra þar. Hér verður tvennt nefnt til umhugsunar í þessu sambandi, annað er einkaskólar og hitt bekkjarstærð. Afstaða þeirra sem fara með menntamál til þessara tveggja atriða getur haft umtalsverð áhrif á útgjöld hins opinbera. Afstaðan nú er þannig að hún hefur áhrif til aukningar útgjalda.
„Fækkun nemenda á kennara, þ.e. fjölgun kennara í skólum landsins, er dýr aðgerð og til að réttlæta hana hlýtur að þurfa að liggja fyrir að árangurinn sé augljós og óumdeildur. Svo er alls ekki.“ |
David Salisbury, sem fjallar um menntamál hjá Cato-stofnuninni í Bandaríkjunum, ritaði í fyrradag grein þar sem hann benti á að með því að auka val foreldra um menntun barna sinna mætti létta á fjárhagsvanda hins opinbera. Kostnaður á nemanda í einkaskólum er verulega mikið lægri en í skólum hins opinbera. Salisbury vísar til talna um útgjöld á nemanda í Washington-ríki, en þar sé kostnaður ríkisins 6.100 dalir á nemanda í opinberum skólum. Kostnaður á nemanda í einkaskólum í ríkinu sé hins vegar aðeins 4.600 dalir, svo spara megi 1.500 dali á hvern nemanda, eða um fjórðung.
Salisbury bendir á að í ríkjunum Maine og Vermont hafi sveitarfélögum lengi verið heimilt að hafa einungis einkaskóla og því sé sú hugmynd að hafa menntakerfið alfarið einkarekið alls ekki jafn fjarstæðukennd og menn kynnu að ætla. Hann segir sum þessara sveitarfélaga aldrei hafa byggt skóla og í einu þeirra, Arrowsic, hafi árið 1995 verið atkvæðagreiðsla um hvort sveitarfélagið skyldi byggja skóla, en hún hafi verið felld. Þar hafi menn kosið að geta áfram valið á milli mismunandi einkaskóla. Í Winhall hafi íbúarnir með atkvæðagreiðslu árið 1998 ákveðið að loka skóla sveitarfélagsins og senda nemendurna þess í stað í tvo einkaskóla sem þar eru, en sveitarfélagið greiðir fyrir menntunina.
Í þessu sambandi má minna á einkarekstur í menntakerfinu í Svíþjóð og áður hefur verið sagt frá hér. Þar greiðir hið opinbera með hverjum nemanda sem fer í einkaskóla og er sú upphæð 75% af kostnaði á nemanda í einkaskóla. Í Svíþjóð fer einkarekstur nú vaxandi og þar nægja þessi 75% sem greiðsla fyrir menntunina í einkaskólunum, því nemendurnir greiða enga viðbót. Munurinn á kostnaði milli einkaskóla og opinbers skóla er því hinn sami í Svíþjóð og í Washington-ríki; einkaskólarnir eru fjórðungi hagkvæmari.
Bekkjarstærð, eða fjöldi nemenda í bekkjardeild, hefur stundum verið höfð sem vísbending um hversu góð menntunin væri. Það virðist vera til vinsælda fallið að lýsa stuðningi við að hafa sem fæsta nemendur í hverjum bekk, að minnsta kosti virðist þetta lítt umdeilt markmið. Svo ætti þó ekki að vera. Í skýrslu sem út kom í desember í fyrra og er eftir Paulo Santiago hjá OECD er meðal annars fjallað ýtarlega um áhrifin af mismunandi fjölda nemenda í bekk. Santiago segir að bekkjarstærð sé meðal þess sem mest hafi verið rannsakað í menntamálum og fækkun í bekkjardeildum sé líklega ein vinsælasta leiðin sem farin sé í því skyni að bæta námsárangur og líklega sé meira fé varið til þessa en annars í sama tilgangi. Þó hafi ekki verið sýnt fram á að áhrif bekkjarstærðar á námsárangur séu jákvæð, oft sé niðurstaða rannsókna ómarktæk og þeir sem hafi rannsakað þetta séu ekki á einu máli. Þrátt fyrir þetta séu foreldrar og kennarar almennt þeirrar skoðunar að betra sé að hafa færri nemendur í bekk en fleiri. Þar sem foreldrar og kennarar, sem saman mynda öflugan þrýstihóp í menntamálum, eru sammála um að hafa fáa nemendur í bekk, þarf ekki að undra þó stjórnmálamenn séu sömu skoðunar.
Skyldi skipta meira máli hver kennir en hve mörgum? |
Fækkun nemenda á kennara, þ.e. fjölgun kennara í skólum landsins, er dýr aðgerð og til að réttlæta hana hlýtur að þurfa að liggja fyrir að árangurinn sé augljós og óumdeildur. Svo er alls ekki. Þrátt fyrir þetta heldur viðleitni áfram í þessa átt og afleiðingarnar eru þær að útgjöld til menntamála aukast og minni fjármunir eru fyrir hendi til að verja til annarra þátta menntunarinnar. Fyrra atriðið snertir alla, því aukin útgjöld til menntamála þýða að almenningur hefur minna til annarra hluta. Síðara atriðið er nokkuð sem kennarar ættu að velta fyrir sér, því þegar mikil áhersla er lögð á að fækka nemendum á hvern kennara, og þar með að fjölga kennurum, minnkar svigrúmið til að hækka laun kennara. Hægt er að greiða kennara sem kennir 30 börnum mun hærri laun en þeim sem kennir 20 börnum, og þó má á sama tíma spara fé. Og eins og gefur að skilja er líka þar með hægt ráða betri kennara.
En í menntakerfinu eru að minnsta kosti tveir aðrir hagsmunahópar og þeir hafa báðir hagsmuni af því að fækka í bekkjardeildum til að fjölga kennurum. Þetta eru annars vegar þeir sem starfa í menntamálaráðuneytinu og hjá fræðsluskrifstofum sveitarfélaganna og hins vegar þeir sem starfa hjá verkalýðsfélögum kennara. Þeir hagsmunir sem þessir hafa að verja eru ef til vill hluti af skýringunni á því hvernig umræðan er um þessi mál, því þessir tveir hópar koma mikið að stefnumörkun í menntamálum.
Afar brýnt er að ný hugsun og ný viðhorf ryðji sér til rúms í menntamálum, því að óbreyttu er ekkert framundan nema enn meiri aukning opinberra útgjalda til menntamála án þess að sýnilegt sé að því fé sé vel varið. Skattgreiðendur ættu hafa í huga að það eru tengsl á milli þess hvaða stefna er rekin í menntamálum og þess hluta mánaðarlaunanna sem hverfur í hina opinberu hít.