Nýlega kom á markaðinn nýtt app. Það er ætlað hluthöfum í fyrirtækjum og sinnir því hlutverki að fylgjast með twitter-tístum Bandaríkjamanns að nafni Donald J. Trump. Ef Trump minnist á fyrirtæki í tístum sínum fá hluthafar þess, sem hafa hlaðið niður appinu, tilkynningu um tístið.
Það er einn af kostum frjáls markaðar að hann snýst um að menn reyna að fullnægja þörfum og löngunum annarra. Stundum eru það mjög brýnar þarfir, stundum eru það þarfir sem enginn vissi að hann hefði fyrr en einhver annar bauð skyndilega lausnina.
Til þess að efnast á frjálsum markaði þarf að fá aðra til að kaupa hjá sér vöruna, sannfæra þá um að varan sé þeim mikilvægari en peningarnir sem þeir borga fyrir hana.
Opinberir starfsmenn hafa ekki þennan sama hvata til að reiða fram vöru eða þjónustu. Þeir reiða það fram sem stjórnmálamenn hafa ákveðið að borgararnir þurfi. Það geta vissulega verið mjög brýnar þarfir, eins og læknisþjónusta fyrir sjúka menn, kennsla fyrir börn, slökkvilið þar sem er eldsvoði. En það geta líka verið veigalitlar þarfir, sem þrýstihópar hafa fengið stjórnmálamenn til að viðurkenna að neyða eigi skattgreiðendur til að borga fyrir.
Það er algengur misskilningur að opinber umsvif séu nauðsynleg forsenda þess að þörf sé mætt. Sé þörf fyrir hendi, sem einhver bæði getur og vill borga fyrir að sé mætt, er mjög líklegt að einhver annar birtist og vilji selja honum lausnina.
Stjórnlyndir menn láta sér ekki nægja að leggja áherslu á að öllum standi til boða heilbrigðisþjónusta og menntun barnanna og annað slíkt, heldur færa ríkið og sveitarfélög út á ný og ný svið. Það er ekki látið nægja heldur skipta stjórnmálamenn sér af sífellt fleiri málum. Þannig innleiddi vinstristjórnin kynjakvóta í stjórnum einkafyrirtækja og sú regla hefur enn ekki verið afnumin.