Síðustu daga hafa ýmsir gagnrýnt að skýrsla, sem fyrrverandi fjármálaráðherra lét gera um aflandsfélög, hafi ekki verið lögð fram í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Kjósendur hafi átt rétt á að þessi skýrsla yrði lögð fram.
Í grein í Morgunblaðinu í gær gagnrýnir Einar S. Hálfdánarson löggiltur endurskoðandi skýrsluna harðlega. Hann segir að sér virðist að „starfshópur sem að mestu leyti var skipaður starfsfólki úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu kunni að hafa farið fram úr sér til að ná fram einhvers lags óskaniðurstöðum.“ Þannig hafi starfshópurinn miðað við í umfjölluninni að til aflandsfélaga teldust „félög í Lúxemborg og Hollandi…“ og segir Einar að þessi lönd geti hafa geymt bróðurpart aflandsfélaganna um tíma. Barack Obama hafi þurft að biðja ríkisstjórn Hollands afsökunar á því að hafa sagt Hollendinga á gráu svæði í skattamálum og vonandi þurfi slík afsökunarbeiðni ekki að verða fyrsta verkefni nýs fjármálaráðherra.
Einar rekur ýmis dæmi um hæpnar ályktanir starfshópsins og bætir við:
Skýrsla um skattundanskot í tengslum við lágskattaríki á að taka mið af staðreyndum ársins 2017. Ef rétt hefði verið að málum staðið hefði verið einboðið að embætti ríkisskattstjóra legði fram skýrslu um þetta efni til umræðu á þingi. Þar er þekkingin. Ekki þýðir að fárast yfir sköttum á Írlandi, Lúxemborg og Hollandi. Úrsögn úr EES er ekkert í spilunum. Það sem máli skiptir er raunhæft mat á undanskotum með starfsemi í lágskattaríkjum. Og starfsemi í lágskattaríkjum getur átt sér fyllilega eðlilegar skýringar þótt hún spari engan skatt. Það á t.a.m. við um útgerð í Afríku þar sem viðunandi bókhaldsskjöl eru illfáanleg.
En umræðan um skýrslugerðina og það að skýrslan hafi ekki verið birt fyrir kosningar vekur athygli á öðru. Er ekki einmitt betra að ráðherrar birti ekki skýrslur skömmu fyrir kosningar?
Skýrsluna um aflandsfélögin bað ráðherrann sjálfur um og ákvað hverjir skyldu vinna hana. Væri ekki einmitt óeðlilegt ef ráðherrar geta látið vinna skýrslur eftir eigin höfði, fyrir skattfé, og birt þær svo þegar þeim hentar best, skömmu fyrir kosningar?
Er ekki rétt að ræða hvort takmarka eigi birtingu opinberra skýrslna og slíks, skömmu fyrir kosningar? Þar mætti miða við sex eða átta vikur, svo eitthvað sé nefnt. Ríkjandi valdhafar hverju sinni, hvort sem er hjá sveitarfélögum og ríki, hafa töluvert forskot á andstæðinga sína að þessu leyti. Það ætti alveg að koma til greina að setja reglur sem draga úr því forskoti, til dæmis með því að takmarka birtingu opinberra skýrslna í ákveðinn tíma fyrir kosningar og jafnvel mætti einnig setja hemil á þátttöku kjörinna fulltrúa við tilfallandi athafnir síðustu vikurnar fyrir kosningar. Ef endilega þarf að opna nýtt dagheimili í vikunni fyrir borgarstjórnarkosningar megi borgarstjóri ekki vera þar í forgrunni. Ef nýtt hjúkrunarheimili er opnað daginn fyrir þingkosningar verði heilbrigðisráðherrann ekki með ávarp. Slík regla þyrfti hins vegar ekki að eiga við um athafnir þar sem valdamaðurinn á ekkert val um tímasetningu. Þótt kosið sé skömmu eftir 17. júní mættu forsætisráðherra og forseti vera á sínum stað á þjóðhátíðinni. Aðalatriðið væri að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn létu tilfallandi athafnir verða, örskömmu fyrir kosningar.
Í raun ættu kjósendur að hafa mikinn vara á sér gagnvart öllum skýrslum og niðurstöðum sem dreift er skömmu fyrir kosningar, hvort sem þær koma frá stjórnvöldum eða hagsmunahópum. Því nær kosningum sem dreifingin er, því meiri líkur eru á að kosningarnar hafi áhrif á það sem kynnt er.