Vinstri grænu skattarnir reyndust svartir

Hærri skattar á bensín en Dieselolíu skýra um það bil þann verðmun sem á þeim er.

Í bílablaði Fréttablaðsins í dag er sagt frá því að yfirvöld vítt og breitt um Evrópu séu farin að vinda ofan af þeirri stefnu að skattleggja fólksbíla sem ganga fyrir bensíni meira en fólksbíla sem knúnir eru með Dieselolíu.

Þessi neyslustýring var „innleidd“ hér á stjórnarárum „hreinu“ vinstristjórnarinnar þegar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra töldu sig vita hvað væri umhverfinu og manninum sem í því hrærist fyrir bestu.

eldsneytisskattar_05_17

Vinstri stjórnin hækkaði því skatta á bensín langt umfram skattana á Dieselolíuna með það að markmiði að ýta fólki yfir í Dieselbíla. Vörugjöldum og bifreiðagjöldum á fólksbílana sjálfa var sömuleiðis breytt bensínbílunum í óhag.

Þessi neyslustýring hefur á nokkrum árum hækkað hlutfall Dieselbíla á kostnað bensínbílanna sem fólk kaus almennt áður en sú „hreina“ komst með puttana í málið.

Dieselbílar gefa frá sér margfalt meira sót og NOen bensínbílar. Þessi útblástursefni eru talin þau skaðlegustu.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra nefndi það við kynningu á stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar að staðið hefur yfir endurskoðun á þessum málum í ráðuneytinu og hennar er getið í yfirlýsingunni.

Vonandi verður það eitt af verkum nýrrar stjórnar að afnema þessa sótugu neyslustýringu „hreinu“ vinstri stjórnarinnar með því að afnema umframskattana af bensíninu.