Í kosningabaráttunni í haust voru höfð mjög stór orð um „endurræsingu“ og „kerfisbreytingar“ á íslensku þjóðfélagi. Þáverandi stjórnarandstöðuflokkar sendu frá sér þau skilaboð að staða Íslands væri svo slæm að nánast þyrfti að núllstilla þjóðfélagið, skipta um hugbúnað (mætti hnupla með ólögmætu niðurhali á netinu) og endurræsa svo.
Undirtónninn í þessu tali var að hér væri mikil misskipting. En hvað segja nýjustu upplýsingar um Gini-stuðulinn svonefnda? Samtök atvinnulífsins birtu þær nýlega. Og þar sést að tekjur dreifast hvergi jafnar í löndum OECD en á Íslandi.
En er kaupmátturinn ekki svo slakur hér á landi í samanburði við til að mynda hin Norðurlöndin? Er ekki allt svo dýrt hér að það fæst ekkert fyrir launin? SA birti einnig þetta súlurit sem sýnir kaupmátt á Norðurlöndunum. Ísland er í öðru sæti á eftir Noregi.
Er þá ekki ástæða til að skoða og endurræsa hvernig laun hækka hér á landi? Er hagvöxturinn að skila sér til launþega? Þarf ekki að endurræsa eitthvað smá í þeim efnum? Jú ef að menn sætta sig ekki við að laun hækki hér um nær 40% á meðan þau lækka á hinum Norðurlöndunum þá er veruleg þörf á einhvers konar endurræsingu á hugarfari viðkomandi.
Er ekki örugglega einhver þarna úti sem getur samt hrópað: VANHÆF RÍKISSTJÓRN!