Í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar segir Árni Þór Árnason athafnamaður að Edinborg hafi endurvakið sporvagna sem lagðir voru af árið 1956. Nú heita þeir léttlest.
Léttlestarspor Skotanna átti að kosta 60 milljarða króna en reyndist kosta 120 milljarða þegar upp var staðið. Sporið er 14 km svo að hver kílómetri kostaði 8 milljarða króna, hver metri 8 milljónir króna og hver millimetri 8 þúsund krónur. Engu er líkara en skartgripasmiðir hafi verið kallaðir til verksins og hafi notað dýrustu málma til þess.
Í Jótlandspóstinum var einnig sagt frá því nýlega að hægristjórnin í Álaborg hafi slegið af áætlun forvera sinna um að leggja 12 km léttlestarspor fyrir 30 milljarða króna sem óvíst er hvað hefði kostað í raun. Þess í stað hafi borgarstjórnin ákveðið að kaupa 24 metra langa strætisvagna sem líta út eins og „léttlest“ en þurfa ekki spor sem kostar tugi milljarða. Þeir kosta aðeins brot af því sem lestin átti að kosta og eru auðvitað mun sveigjanlegri en lestin.
En auðvitað er léttlest rædd af fullri alvöru í Reykjavíkurborg undir merkjum „borgarlínu“ þar sem á teikniborðinu eru tugir kílómetra af lestarteinum þar sem hver kílómetri er talinn kosta um 4 milljarða króna.