Ekki er víst að meðferð nokkurra stjórnmálaflokka á Framsóknarflokknum undanfarnar vikur eldist vel. Gæti ekki verið að menn muni eiga erfitt með að skilja það er fram í sækir að Framsóknaflokkurinn, sem setti formann sinn af sem forsætisráðherra vegna upplýsinga sem komu fram í svonefndum Panamaskjölum og velti honum í kjölfarið úr embætti formanns, skuli vera útilokaður úr stjórnarmyndunarviðræðum vegna… upplýsinga sem komu fram í Panamaskjölunum?
Eru Samfylking, Viðreisn, VG og Píratar að mótmæla því að Framsóknarflokkurinn skipti um formann og forsætisráðherra?
Það er einhver óskiljanleg heift sem búið hefur um sig á vinstri vængnum og birtist meðal annars í viðhorfinu til nýkjörinni þingmanna Framsóknarflokksins. Annað og smærra dæmi frá því í gær má nefna. Þá skrifar Guðbjörn Guðbjörnsson yfirtollvörður á Eyjuna um hina miklu kaupmáttaraukningu sem átt hefur sér stað undanfarin ár.
Og hver er nú helsta niðurstaða hans í þeim efnum?
Það segir sig sjálft að íhaldið – í sinni sérhagsmunagæslu fyrir hina fáu – er ekki sátt við þetta frekar en fyrri daginn, heldur vill að örfáir útgerðarmenn og stórir ferðaþjónustuaðilar raki hér saman peningum á meðan vinnumaurarnir eiga vart til hnífs og skeiðar og hafa ekki efni á að endurnýja bílana sína, nauðsynleg heimilistæki eða skella sér í helgarferð til London.
Sjálfstæðismenn eru samkvæmt kenningum þessa manns miður sín yfir því að kaupmáttur hafi almennt aukist. Þeir vilja hvorki að fólk eigi til hnífs og skeiðar né geti skellt sér í helgarferð til London.