Heppnasta fólk veraldarsögunnar er nánast allt uppi

Mynd: Our World in Data.

Nýleg könnun leiddi í ljós að aðeins örfá prósent manna telja að almennt ástand í heiminum fari batnandi. Aðeins 10% Svía, 6% Bandaríkjamanna og 4% Þjóðverja.

Frá þessu er sagt á síðunni Our World in Data sem nokkrir einstaklingar við Oxford háskóla halda úti.

Þetta er ekki nýtt. John Stuart Mill veitti þessari bölsýni athygli á 19. öld.

I have observed that not the man who hopes when other despair, but the men who despairs when others hope, is admired by a large class of persons as a sage.

En gögnin sem lögð eru fram á Our World in Data eru alveg þvert á bölmóðinn sem birtist í könnunum og ekki síður í fréttum sem fjölmiðar flytja af hvers kyns hörmungum og óáran.

Á síðunni má til að mynda finna 5 myndir sem sýna þróun lífsskilyrða mannsins; fátækt, læsi, barnadauða, lýðræðisþróun og skólagöngu. Þessir 5 þættir gefa nokkuð glögga mynd af hag mannsins. Og þeir eru allir á sömu leið. Sífellt stærri hluti mannskyns brýst úr fátækt og barnadauða til hagsældar, menntunar og lýðræðis.

Þegar haft er í huga hve mjög fólki hefur fjölgað samfara þessum miklu framförum má segja að flestir þeir sem búið hafa við bestu lífsskilyrði mannkynssögunnar séu meðal okkar í dag.