Jafnir fyrir lögum

Mynd: Golosi/Shutterstock.

Líklega eru fá grófari dæmi hérlendis um mismunun gagnvart lögum en árleg lagasetning alþingis um ríkisborgararétt nokkurra einstaklinga.

Með þessari lagasetningu er þessum einstaklingum hleypt framhjá almennum lögum og reglum um veitingu ríkisborgararéttar og þeim kröfum sem menn þurfa að uppfylla til að hljóta hann.

Með öðrum orðum hafa þessir einstaklingar ekki uppfyllt þau skilyrði sem almennt gilda. Einhverjir þeirra grípa þá til þess ráðs að leita beint til alþingismanna. Er augljóst að þar skiptir persónulegur aðgangur að þingmönnum, ekki síst allsherjarnefndarmönnum, máli.

En eru hin almennu skilyrði ekki nær óyfirstíganleg fyrir útlendinga? Kemst nokkur í gegnum þessa síu á Útlendingastofnun?

Þeir voru um eittþúsund á síðasta ári.

Það er athyglisvert að í allri umræðunni um fagleg vinnubrögð og gagnsæi skuli þingið enn fara þessa leið að nokkrir þingmenn úr allsherjarnefnd fari yfir persónuleg gögn um fólk, allt frá hraðasektum til fyrri starfa og fjölskyldumála, og velja síðan úr hópnum.

Tveir flokkar virðast öðrum fremur hrifnir af þessu fyrirkomulagi pólitískrar fyrirgreiðslu. Annars vegar er það Viðreisn, almannahagsmunir umfram sérhagsmuni, en Pawel Bartosek þingmaður flokksins fagnaði því sérstaklega að þingmenn tækju enn slíkar geðþóttaákvarðanir um mikilvæg réttindi fólks. Hins vegar Píratar sem hafa jafnvel lagt fram lagafrumvarp um að tilteknum erlendum ríkisborgara sé veittur íslenskur ríkisborgararéttur án þess að hafa nokkru sinni stigið hér fæti, hvað þá að slíkir menn uppfylli nokkur af þeim almennu skilyrðum sem um ríkisborgararéttinn gilda.

Þetta eru auðvitað þeir flokkar sem helst hafa útnefnt sig flokka hinna nýju og bættu vinnubragða.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.