Alþingi var að ákveða að jafna lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á einkamarkaði.
Gott og vel, í sjálfu sér þarf ekkert að vera að þessu og með í kaupunum fylgdi ágæt takmörkun á ríkisábyrgð á sjóðum opinberra starfsmanna. Það sem var svolítið merkilegt var að margir lýstu þessu sem miklu réttlætismáli vegna jöfnunarinnar. En er það svo?
Hið opinbera og einkaaðilar eru gjörólíkir vinnuveitendur að mörgu leyti. Er nauðsynlega eitthvert óréttlæti í því fólgið?
Opinberir starfsmenn njóta margra réttinda sem starfsmenn einkafyrirtækja njóta ekki. Hið opinbera er bundið af stjórnsýslureglum og upplýsingalögum sem einkafyrirtæki eru ekki. Á móti kemur alls kyns frjálsræði einkafyrirtækja, sem starfsmenn þeirra geta notið. Einstakir starfsmenn einkafyrirtækja geta samið við vinnuveitendur sína um flest sem báðir aðilar verða ásáttir um. Einkafyrirtæki getur launað afburðastarfsmenn sérstaklega. Stundum eignast starfsmenn meira að segja hlutabréf í félaginu á hagstæðum kjörum.
Það má lengi telja það sem er ólíkt hjá hinu opinbera og einkafyrirtækjum. Í stuttu máli má líklega segja að öryggi starfsmanna sé yfirleitt meira hjá hinu opinbera, gjaldþrot og fjöldauppsagnir eru þar ekki yfirvofandi hætta, en á móti kemur að laun eru yfirleitt hærri og möguleikarnir meiri hjá einkafyrirtækjum. Það er alveg hægt að minnka þennan mun ef menn vilja, en það er ekki víst að það sé eitthvert réttlætismál.