Það verður alltaf hægt er gera betur

Mynd: Shutterstock/hxdbzxy.

Þegar fjárlagagerðin stendur yfir verða forstöðumenn og aðrir starfsmenn opinberra stofnana oft áberandi í fjölmiðlum. Þeir ræða með stórum orðum um þá skelfingu sem vofi yfir verði opinber framlög til stofnunarinnar ekki aukin um verulegar fjárhæðir. Og það eru aldrei neinar venjulegar hörmungar sem hætta er á.

Það hafa aldrei verið sett fram fjárlög sem eru þannig að hætta sé á að stofnun þurfi að fækka ráðstefnuferðum eða segja upp fjölmiðlafulltrúa eða fækka mannauðsstjórum. Það stefnir aldrei í að fækka verði í yfirstjórn „að óbreyttu“. En það eru margar tillögur sem hafa í för með sér að einmitt sú þjónusta stofnunarinnar sem nýtur mests almenns stuðnings verður í mikilli hættu.

Fréttamenn birta margar fréttir um þetta ástand. Stundum er leitað til fulltrúa þeirra sem nota þjónustuna og þeir eru mjög áhyggjufullir. En merkilega oft er ekki tekið fram í fréttum hvernig framlög til málaflokksins hafa þróast árin á undan, til dæmis miðað við verðbólgu. Líklega er algengt að margir trúi að málaflokkur, sem hefur notið stóraukinna framlaga árum saman, búi við samfelldan niðurskurð.

Viðtal Ríkisútvarpsins við Birgi Jakobsson landlækni um ástandið á Landsspítalnum í dag var nokkuð merkilegt. Hann tók nefnilega ekki undir allt það sem sagt er um það ástand. Hann segir ástandið ekki verra en sé að jafnaði, þótt hann telji „ekki ásættanlegt að fólk liggi á göngum og svo framvegis“ en inn á milli komi tímabil þar sem grípa verði til slíkra aðgerða. Birgir nefnir sérstaklega sem skýringu að verið sé að endurbyggja ákveðnar deildir og fjögurra manna stofum hafi verið breytt í tveggja manna stofur.

Það sem eftir Birgi er haft er að mörgu leyti á öðrum nótum en hamfarafréttirnar sem oft eru sagðar af spítölunum. Birgir veit líklega ýmislegt um rekstur sjúkrahúsa, en hann var árum saman forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, stærsta háskólasjúkrahúss Svíþjóðar.

En hver vill ekki að meira sé gert fyrir sjúklinga? Hver getur sagt að nú sé einmitt nóg komið og að ekki eigi að auka framlög skattgreiðenda frekar?

Það er hægt að auka framlög til heilbrigðismála svo mikið að hver einasta króna fari til þeirra. Samt yrði fólki ekki tryggð besta mögulega heilbrigðisþjónusta. Það væri alltaf hægt að gera betur. Alltaf hægt að tryggja hverjum sjúklingi fleiri lækna eða láta hann bíða skemur. Lyf verða ekki aðeins sífellt betri heldur einnig sífellt dýrari. Sífellt kemur nýr búnaður, fullkomnari hjálpargögn, betri tæki sem geta nýst fleirum. Og þau eru miklu dýrari en þau sem fyrir voru. Með betri lyfjum, betri tækjum, betri aðstöðu, reyndum læknum og svo framvegis tekst að bjarga fleira fólki. En það fólk þarf þá meðhöndlun lengur, endurhæfingu, lyf, eftirlit. Kostnaðurinn vex endalaust.

Meðal annars þess vegna er mikilvægt að leita skynsamlegra leiða til að nýta hverja krónu betur. Hugsanlega mætti gera það að einhverju leyti með auknum einkarekstri. Það er ein leið sem menn ættu að skoða með opnum huga, og gefa sér þá hvorki að einkarekstur þurfi að fara gegn markmiðum um jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu né að í einkarekstri fari menn alltaf betur með peningana en í opinberum rekstri.