Niðurstaða kosninganna er að það fær enginn flokkur neitt

Við Sigríðarstaðavatn í Húnaþingi.

Þótt menn eigi bágt með að skilja það og síðan að sætta sig við það þá komu engin afgerandi skilaboð út úr þingkosningunum í haust önnur en einmitt þau. Kjósendur sendu enga sérstaka kröfu með kjörseðlunum.

Af þessu verða þingmennirnir 63 að taka mið. Það verða engar endurræsingar, byltingar, kerfisbreytingar eða annar meiriháttar gauragangur á þessu kjörtímabili. Menn verða að sætta sig við að vinna innan þeirra meginlína sem þegar hafa verið dregnar á síðustu áratugum.

Það er líka annað sem mælir með því að menn andi rólega næstu misserin. Ísland er á flesta mælikvarða eitt besta þjóðfélag veraldar og þar með veraldarsögunnar. Vissulega má gera margt betur en ekkert bendir til að það verði helst gert með endurræsingum og öðrum æsingi.

Og hver segir að það geti ekki einmitt verið tilfellið að þegar stjórnmálaflokkarnir koma minnstu í verk vænkist hagur landsmanna mest?