Það er athyglisvert að sjá til áhugamanna um að Íslendingar kaupi miklu dýrari bíla en þeir þurfa.
Þetta eru talsmenn þess að ákveðnir bílar fái undanþágu frá vörugjöldum sem geta verið allt að 65% og 24% virðisaukaskatti. Skattaívilnunin getur því hlaupið á nokkrum milljónum króna. Hér er einkum átt við svonefnda rafbíla eða tvinnbíla. Stórir bensínjeppar með litlum rafmótor með mjög takmarkað drægi bera þannig lægri skatt en lítill bensínbíll
Frá árinu 2012 hefur slík mismunun verið leidd í lög með árvissum hætti og í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að þessi hvati til að kaupa dýrari bíla til landsins verði framlengdur um eitt ár.
En það er ekki nóg með að rafbílar beri enga skatta eins og aðrir bílar við sölu þeirra. Af þeim eru heldur engin bifreiðagjöld greidd og engin notkunarskattar eins og eigendur bensínbíla gera í gegnum háa bensínskatta. Eigendur hreinna rafbíla leggja því ekkert til veganna sem þeir aka eftir.
Á mbl.is er haft eftir framkvæmdastjóra eins bílaumboðsins að fáist þessi skattfríðindi ekki framlengd „þá náttúrulega bara stoppar rafbílasalan.“
Fólk vill með öðrum orðum ekki kaupa þessa bíla nema ríkið veiti sérstök fríðindi til þess. Það þarf neyslustýringu ríkisins til.
Vonandi kemur að því að rafbílar verði á samkeppnishæfu verði og notkun þeirra jafn þægileg og bensínbílsins. Þangað til hlýtur að orka mjög tvímælis að ríkið beini mönnum að dýrari og óþægilegri kosti.