Eina framlag Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þingmanns Viðreisnar í umræðum um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps í dag voru kveinstafir yfir því að tiltekinn skattur frá tíð vinstri stjórnarinnar væri ekki hækkaður nægilega, nefnilega kolefnisgjaldið.
Þar er lagt til að fjárhæð kolefnisgjalds af eldsneyti hækki um 2,2% eða í samræmi við verðlagsforsendur á milli áranna 2016 og 2017. Og ég velti því fyrir mér hvort af því það er í rauninni hreinlegasta leiðin til þess að minnka kolefni og til þess að framfylgja Parísarsáttmálanum þá er einfaldasta leiðin að hækka kolefnisgjöld. Þess vegna vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann sjái fram á breytingar á þessu tiltekna gjaldi, kolefnisgjaldinu, og þá til hækkunar, þannig að við getum við Íslendingar framfylgt þeim skuldbindingum sem við öll hér, ég held ég geti fullyrt það við öll hér í þingsalnum viljum að Parísarsáttmálanum verði framfylgt, hvernig hann sjái þá fram á það að við uppfyllum þau skilyrði sem við höfum skrifað undir og skuldbundið okkur samkvæmt Parísarsáttmálanum hvernig verði það gert, verður það þá gert með hækkun á kolefnisgjaldi umfram verðlagsforsendur eða á hvaða annan hátt sér ráðherra það gert.
Kolefnisgjaldið leggst einkum á heimilisbílinn og sjávarútveginn. Samtals eru þessir aðilar með innan við 7% af árlegri heildarlosun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum. Jafnvel þótt tækist með hækkun kolefnisgjalds að koma í veg fyrir að nokkrir láglaunamenn hefðu efni á rekstri bíls – eða að endurnýja gamla mengandi bílinn – mundi það hafa hverfandi áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.
Það er því alger misskilningur hjá þingmanninum að það sé hreinlegasta eða einfaldasta leiðin til að draga úr losun og standa við Parísarsamninginn að hækka þennan skatt sem Steingrímur og Jóhanna lögðu á landsmenn undir vistvænu yfirvarpi en var auðvitað ekkert annað en tekjuöflun fyrir ríkissjóð.