Líklega er best að byrja á einhverju jákvæðu um bandorminn svonefnda, ýmsum forsendum fjárlagafrumvarps, sem lagður var fram í dag.
Bændasamtök Íslands, sem teljast til frjálsra félagasamtaka, hafa ákveðið að taka upp almennt félagsgjald sem koma mun í stað búnaðargjalds. Þar með eru ekki lengur fyrir hendi forsendur fyrir því að ríkið hafi aðkomu að innheimtu og álagningu gjaldsins. Í ljósi framangreinds er lagt til að lög um búnaðargjald falli úr gildi frá og með 1. janúar 2017.
Ekki verður betur séð en að þetta sé alveg ágætt. Ríkissjóður á ekki að fjármagna starfsemi almennra félaga.
En ætli frjálsum félagasamtökum á fjárlögum hafa fækkað eða fjölgað hin síðari ár? Það gæti verið forvitnilegt að sjá lista yfir hvaða félög þetta eru sem enn eru á framfæri ríkisins nú þegar jafnvel Bændasamtökin hverfa af fjárlögum.
Ætli til að mynda Neytendasamtökin, sem gagnrýna bændur oft fyrir forsjárhyggju gagnvart neytendum og skattgreiðendum, séu nokkuð á fjárlögum?