Nú stendur til að reyna aftur að mynda fimm flokka vinstristjórn, eins farsælt og það yrði.
Á þeim bæjum eru margir sem hafa íslenskan sjávarútveg á heilanum og finnst að þá atvinnugrein eigi að skattleggja sérstaklega um marga milljarða á ári, bylta fiskveiðistjórnarkerfinu og setja aflaheimildir á ríkisuppboð.
Í nýjasta tímariti Fiskifrétta skrifar ritstjóri blaðsins, Guðjón Einarsson, athyglisverðan leiðara. Þar segir:
Margir standa í þeirri trú að sjávarútvegurinn hafi orðið til árið 1984. Að það ár hafi menn staðið á bryggjunni og fengið aflaheimildir gefins,“ segir Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gjögurs hf. í viðtali hér í Tímariti Fiskifrétta. Árið 1984 markar vissulega tímamót í íslenskum sjávarútvegi – árið sem kvótakerfið tók gildi. Því fór hins vegar víðs fjarri að stjórnvöld kæmu þá færandi hendi og afhentu mönnum veiðirétt á silfurfati. Þvert á móti var verið að skerða þann rétt sem þeir höfðu haft frjálsan frá ómuna tíð.
Kvótakerfið var innleitt vegna þess að allt var komið í óefni í sjávarútveginum, eins og Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur rekur í athyglisverðri grein hér í blaðinu. Því til áréttingar bendir hann á að árið 1982 hafi þorskveiðin numið 382 þúsund tonnum og aðrar botnfiskveiðar 308 þúsund tonnum en samt var hreint tap á veiðunum 12%. Svipað var uppi á teningnum árið eftir. Svo var komið að fiskistofnarnir þoldu ekki það mikla veiðiálag sem var orðið í kjölfar offjárfestingar í fiskiskipum á áttunda áratugnum og í upphafi þess níunda enda þótt þjóðin sæti nú ein að fiskimiðunum við landið eftir útfærslu fiskveiði lögsögunnar.
Þótt kvótakerfið í þáverandi mynd hefði verið til bóta voru sjávarútvegsfyrirtækin aftur komin á heljarþröm árið 1988 í kjölfar þess að afurðaverð féll á erlendum mörkuðum og innlendur kostnaður var of ár. Þetta ástand leiddi til þess að fiskveiðilögunum var breytt árið 1990, frjálst framsal aflaheimilda leyft og sóknarmark afnumið.
Flestir þekkja eftirleikinn. Gríðarleg hagræðing átti sér stað samfara samþjöppun aflaheimilda bæði í veiðum og vinnslu. Sjávarútvegurinn er ekki lengur á heljarþröm. Þegar harðnar á dalnum bregst sjávarútvegurinn sjálfur við en leitar ekki ásjár ríkisins eins og áður. Vissulega gekk þetta ekki sársaukalaust fyrir sig. Mörg byggðarlög fóru illa út úr hagræðingunni en þjóðarheildin hagnaðist. Þetta hagræðingarferli er að mestu um garð gengið. Torvelt er að sjá að vit sé í því að fara nú að brjóta þetta kerfi upp með því að taka aflaheimildirnar af þeim sem eru handhafar þeirra í dag (og hafa að stórum hluta keypt þær af öðrum) og bjóða þær upp á markaði. Sé tilgangurinn sá að opna greinina fyrir nýliðun er líklegast að afleiðingin verði þveröfug. Fjársterkar útgerðir munu ávallt standa betur að vígi á slíkum uppboðum en minni útgerðir og afleiðingin verður enn meiri samþjöppun. Sé tilgangurinn sá að afla ríkinu aukinna tekna af sjávarútveginum er nærtækara að gera það með hækkun veiðigjalda, telji menn að atvinnugreinin þoli slíkt. Af hverju er verið að gera einfalt mál flókið?
Það er mikið vandamál hversu stór hluti kjósenda virðist nær ekkert þekkja til sögu fiskveiðistjórnar við Ísland undanfarna áratugi. Það gerir lýðskrumurum auðveldara fyrir að æsa fólk upp gegn fiskveiðistjórnarkerfinu og sjávarútveginum, undirstöðuatvinnugrein landsins.