Ásgeir Jónsson hagfræðingur rakti nýlega sögu kvótakerfisins í grófum dráttum á vef Virðingar. Þar segir meðal annars:
Þegar kvótakerfið kom fram í sinni fyrstu mynd árið 1984 var rekstur sjávarútvegsfyrirtækja herfilegur. Árið 1982 var 40% taprekstur af útgerð hérlendis, 13% tap árið 1983 og 19% tap árið 1984. Afli fór minnkandi vegna ofveiði samhliða því að gríðarleg umframframleiðslugeta var til staðar. Fiskmarkaðir þekktust ekki heldur var fiskverð ákveðið af opinberu verðlagsráði og millifærslukerfi. Vegakerfi landsins var byggt upp af malarvegum er voru vanbúnir fyrir þungaflutninga. Verðbólga mældist í tugum prósenta. Greininni hafði um langan tíma verið haldið uppi með lánum á neikvæðum raunvöxtum en eftir að verðtryggingu var komið á árið 1979 fór að þrengja að mörgum skuldsettum fyrirtækjum. Hrun þorskstofnsins árið 1989 var síðan gríðarlegt áfall – útgerðin var á leiðinni á hausinn og við lá að hún myndi draga bankakerfið með sér. Níundi áratugurinn endaði því á stóru „beiláti“ fyrir sjávarútveginn sem var með öðrum þræði „beilát“ fyrir bankakerfið sjálft. En þá jafnframt varð sú mikilvæga breyting gerð að aflaheimildir urðu framseljanlegar árið 1990 sem skapaði grunn fyrir hagræðingu í greininni – að hin hagvæmari fyrirtæki keyptu út þau lakari. Samhliða hafa sjávarútvegsfyrirtækin stækkað en jafnframt hefur stoðum verið skotið undir gríðar mörg lítil og sérhæfð fyrirtæki.
Þannig er þetta nú.
Undanfarin ár hefur því ekki verið grenjað og gólað yfir tapi og ríkisstyrkjum til útgerðarinnar heldur að henni vegni of vel, það er orðið sérstakt vandamál, ekki síst að mati hins dæmigerða álitsgjafa í fjölmiðlunum.
Álitsgjafinn krefst því sáttar um sjávarútvegsmálinn þegar það stendur helst upp á hann sjálfan að sætta sig við velgengni annarra.