Þeim hefur verið vandi á höndum hagfræðingunum á árunum eftir seinna stríð þegar tekjur hins opinbera voru „aðeins“ um 20% af vergri landsframleiðslu. Hvernig fóru þeir að því að kæla hagkerfið og draga úr einkaneyslunni þegar hið opinbera hafði svo takmörkuð umsvif?
Nú til dags eru tekjur hins opinbera hins vegar í kringum 45% af þjóðarkökunni. Við núverandi aðstæður telja menn sig geta „slegið á þensluna“ með því að hækka skatta, sem þegar eru mjög háir, svolítið hér og þar og vafalaust má þannig hafa utanlandsferð að einhverjum meðaltekjumanninum eða fresta því að hann láti mála hjá sér þakið ásamt því að raska grundvelli þeirra sem eru að fara af stað með nýr fyrirtæki. En um leið að „þenslan“ víkur fyrir samdrætti er reyndar byrjað að ræða um að hækka þurfi skatta til að „veikja ekki tekjugrunn ríkisins.“ Það er aldrei rétti tíminn til að lækka skattana.
En ætli hagspekingar um miðja síðustu öld hafi verið jafn sannfærðir og ýmsir kollegar þeirra eru í dag að með því að færa tekjur frá einstaklingum til 63 þingmanna gætu menn „komið í veg fyrir ofhitnun hagkerfisins“?
Gæti ekki einmitt verið að þessi uppskrift að hagstjórn sé ein af ástæðum þess að hið opinbera tekur nú ríflega tvöfalt stærri sneið en áður þótt kakan hafi margfaldast að stærð?