Vildu kjósendur skattahækkanir?

Ekki verður ráðið af niðurstöðum þingkosninga að kjósendur hafi kallað eftir skattahækkunum.

Í þingkosningunum í síðasta mánuði talaði Sjálfstæðisflokkurinn fyrir skattalækkunum. Hann varð langstærsti flokkurinn, með þriðjung þingsæta, ellefu þingmönnum meira en þeir þingflokkar sem næstir koma.

Framsóknarflokkurinn boðaði einnig skattalækkanir. Hann fékk átta þingmenn. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru samtals með 29 þingmenn.

Viðreisn talaði ekki fyrir skattahækkunum nema í grænum felubúningi eða sem „markaðsleið í sjávarútvegi“ sem er dulnefni hins „frjálslynda stjórnmálaafls“ á þjóðnýtingu, ríkisuppboði og millifærslusjóðum. Formaður Viðreisnar segir að flokknum hugnist alemnnt ekki skattahækkanir. Viðreisn er með 7 þingmenn.

Það má samkvæmt þessu gera ráð fyrir að 36 þingmenn hið minnsta, vilji ekki skattahækkanir. Eftir standa þá, sem hugsanlegir baráttumenn fyrir skattahækkunum, 27 aðrir þingmenn.

Er þá mikil ástæða til að eyða mörgum fundum í að ræða margra milljarða skattahækkunardrauma vinstrimanna?

Skattahækkunarsinnar fengu lítinn hljómgrunn við kosningarnar.

Ef draga á ályktun af kosningunum, í tengslum við skattamál, er hún sú að skattalækkunarsinnar hafi fengið mun betri kosningu en skattahækkunarsinnar. Eðlileg niðurstaða stjórnarmyndunarviðræðna ætti að því leyti að verða sú að samið verði um skattalækkanir sem alla muni um. Við útfærslu þeirra þarf að gæta þess að allir njóti skattalækkananna, bæði með almennri lækkun tekjuskatts en einnig virðisaukaskatts.