Ríkið eða ekki?

Þótt kosningabaráttunni sé lokið keppast menn við að lofa fé í heilbrigðiskerfið, menntamálin og síðast enn ekki síst í innviðina. Með innviðum er fyrst og fremst átt við vegi landsins en það þykir ekki lengur við hæfi að tala um vegi og brýr því þá gæti jafnvel einhver haldið að viðkomandi væri ekki andstæðingur einkabílsins.

Franski rithöfundurinn Frédéric Bastiat skrifaði í Lögin:

Jafnaðarstefnan ruglar saman stjórnvöldum og samfélagi, rétt eins og þær gömlu stjórnmálahugmyndir sem hún er sprottin af. Því er það að í hvert sinn sem við viljum ekki að stjórnvöld geri eitthvað, ályktar jafnaðarstefnan að við viljum ekki að það sé gert yfir höfuð. Við viljum ekki að ríkið sjái um menntun; þar með viljum við ekki neina menntun. Við viljum ekki hafa ríkistrú; þar með viljum við ekki hafa neina trú. Við viljum ekki að ríkið sjái um kjarajöfnun; þar með viljum við ekki hafa neinn jöfnuð, og þar fram eftir götum. – Það mætti eins segja að við viljum ekki að fólk borði, af því við viljum ekki að ríkið rækti korn.

Raunar er búið að þróa jafnaðarstefnuna frá því Bastiat skrifaði þetta fyrir hálfri annari öld því nú er komið sérstakt hugtak, matvælaöryggi, um styrkina til landbúnaðar.

En það er ágætt að hafa þetta í huga að menn sem malda í móinn þegar rætt er um að auka styrki í hitt og þetta eru ekki endilega andvígir málefninu heldur jafnvel þvert á móti. Þeir telja einfaldlega að betra sé að skipa málum á annan hátt, að aukin ríkisútgjöld séu ekki alltaf til bóta.