Erum sem þjóð að koma ótrúlega vel undan þessum hremmingum

Rætt var við Gísla Hauksson forstjóra fjármálafélagsins Gamma í Viðskiptamogganum á fimmtudaginn en félagið vinnur meðal annars að því að greiða leið þeirra Íslendinga sem vilja leggja sparifé í erlenda sjóði og aðra kosti til að dreifa áhættu. Eins og Gísli bendir á eru um 85% sparnaðar landsmanna í innlendum gjaldmiðli sem sé hátt í samanburði við aðrar þjóðir. Til að bæta úr þessu  hefur Gamma stofnað félag í Bretlandi og stefnir að opnun skrifstofu í Bandaríkjunum á næsta ári.

Þótt jákvæðni hafi verið nánst bannfærð á Íslandi frá hausti 2008 er Gísli bjartsýnn á hag Íslendinga:

Það má í raun segja að nú séu að eiga sér stað síðustu skrefin til þess að losa okkur undan eftirmálum hrunsins. Þar má benda á fimm atriði sem skipta meginmáli. Það eru aflétting gjaldeyrishafta, sala á bönkunum, fjárfesting í innviðum, alþjóðleg áhættudreifing íslenskra eigna og að fá erlenda aðila til þess að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Þegar við höfum tekið þessi skref getum við horft beint fram á veginn. Þegar upp er staðið erum við sem þjóð í raun að koma ótrúlega vel undan þessum hremmingum. Ekki má gleyma því að Ísland lendir yfirleitt mjög ofarlega á blaði í hvers kyns samanburði við önnur lönd, til dæmis þegar um er að ræða jafnrétti, heilbrigðismál og lífskjör að öðru leyti.

Það er áhugavert í þessu samhengi að nefna að þeir flokkar sem stýrt hafa landinu frá bankahruni  eru Samfylkingin, VG, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eða flokkarnir sem stundum eru nefndir „fjórflokkurinn“ til háðungar af álitsgjöfum.

Gísli nefnir einnig tregðu kerfisins til að gefa frá völd sem það hefur fengið þótt ætlunin hafi verið að þau yrðu aðeins tímabundin.

Svo við snúum aðeins út úr orðum Milton Friedman má segja að líklega sé ekkert eins varanlegt og tímabundnar valdheimildir til opinberra starfsmanna. Maður finnur að Seðlabankinn og eftirlitsaðilar eiga mjög erfitt með að gefa frá sér völdin varðandi krónuna. Það stendur augljóslega ekki til að krónan verði frjáls mynt, heldur á hún að vera áfram í einhvers konar höftum. Þetta er hins vegar varasamt, því gjaldmiðill verður að gefa rétta mynd af hagkerfinu á hverjum tíma. Gjaldmiðill er oft besti mælikvarðinn sem aðilar hafa til þess að taka fjárfestingarákvarðanir. Ef ekki er hægt að treysta því að gengi gjaldmiðils sé rétt er líklegra að menn taki rangar ákvarðanir. Og við skulum bara vona að menn hafi ekki tekið rangar ákvarðanir varðandi þætti sem tengjast til dæmis ferðaþjónustu, út af því að krónan hefur verið kerfisbundið of veik. En það er ástæða til þess að hafa ákveðnar áhyggjur af því.