Já, en Hillary fékk fleiri atkvæði á landsvísu

Það fer ekki á milli mála að mjög margir eru óánægðir með að Donald Trump hafi unnið óvæntan og öruggan sigur í bandarísku forsetakosningunum. Þeir róttækustu taka sigri hans verst og gengu um öskrandi dögum saman, veltu bílum og brutu rúður. Róttæklingar tryllast oft við tilhugsunina um að einhver, sem þeim er illa við, hafi fengið lýðræðislegt umboð, og öskrin og ólætin í Bandaríkjunum eru áminning um pólitíska heift róttæklinga.

Flestir venjulegir menn una þó lýðræðislegum úrslitum, þótt þeir fagni þeim ekki. Aðeins mestu ofstopamenn reyna að komast fram hjá úrslitum og koma einhvern veginn í veg fyrir að vilji kjósenda nái fram að ganga.

En að sjálfsögðu reyna þeir, sem bíða lægri hlut, að benda á eitthvað sem þeim finnst jákvætt, rétt eins og þjálfari fótboltaliðs sem tapar 4-0 en talar eftir leikinn bara öll hornin sem liðið fékk og sköpuðu stórhættu. Slík viðbrögð eru mannleg og þjóna auk þess þeim tilgangi að stappa stálinu í liðið og stuðningsmennina.

Víða um hinn vestræna heim hamra menn á því að Hillary Clinton hafi samtals fengið fleiri atkvæði en Donald Trump. En þar tala menn um algert aukaatriði. Þeir sem þannig tala horfa alveg fram hjá því hvernig Bandaríkin eru byggð upp og hvernig forsetakosningar fara þar fram. Vegna þess að kosningin fer þannig fram að einstök ríki kjósa sér kjörmenn sem taka svo sæti á sameiginum kjörmannafundi allra ríkja og velja forseta, taka kjósendur sína ákvörðun og flokkarnir haga kosningabaráttu sinni þannig, að engin ástæða er til að velta fyrir sér hvaða frambjóðandi fær fleiri samanlögð atkvæði á landsvísu.

Í mjög mörgum af hinum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna er alveg ljóst fyrirfram hver sigrar í ríkinu og fær alla kjörmenn þess. Í New York sigrar frambjóðandi demókrata líklega með um 1,5 milljónir atkvæða umfram frambjóðanda repúblikana. Í Kaliforníu hafa demókratar líklega um eina milljón atkvæða í forskot. Í Texas hafa repúblikanar mjög mikið forskot. Í mörgum öðrum ríkjum eru úrslitin jafn ljós fyrirfram, þótt tölurnar séu yfirleitt lægri. Flokkarnir vita þetta og kjósendur vita þetta. Billy Bob, hófsamur demókrati í Texas, fer kannski á kjörstað ef hann nennir, en hann veit að repúblikaninn mun vinna. Billy Bob mun ekki nenna að standa í rigningu í hálftíma til að kjósa. Rosalynn, rólegur repúblikani í New York hugsar það sama. Hvers vegna ætti hún að eyða tíma og fyrirhöfn í að kjósa í kosningu þar sem demókratar munu vinna með meira en eina og hálfa milljón atkvæða umfram hennar mann?

Flokkarnir vita þetta líka. Þeir eyða ekki stórfé í að kynna forsetaframbjóðanda sinn í vonlausum ríkjum. Frambjóðandi repúblikana fer ekki hús úr húsi á Hawaii. Demókratinn fer ekki á sleða um Alaska.

Ef fjöldi atkvæða á landsvísu skipti einhverju máli yrðu úrslitin á landsvísu allt önnur en þau verða í núverandi kerfi. Þá myndu repúblikanar leggja mikið á sig við að koma sínum mönnum í Kaliforníu á kjörstað. Demókratar berðust um hvern mann í Texas. Þau Billy Bob og Rosalynn myndu sjálf kjósa snemma morguns og eyða svo deginum í að draga vini og vinnufélaga á kjörstað.

Þegar kerfið er þannig að atkvæði á landsvísu skipta engu máli, þá eiga menn ekki að láta þau draga athygli sína frá úrslitunum. Ekki frekar en menn ættu að fara að telja hornspyrnur eftir fótboltaleiki.