Verðlagsnefnd búvara hefur tekið samhljóða ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 2,5% þann 1. júlí 2016. – ákvörðun Verðlagsnefndar búvara birt á rml.is 29. júní 2016.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%. – ákvörðun verðlagsnefndar fjármagns birt á sedlabanki.is 16. nóvember 2016.
Hér hefur oft verið spurt hvers vegna verðlagsnefnd á vegum hins opinbera ákveðið verð, vexti, á fjármagni. Nefnd þessi er nefnd peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Þar sitja fimm einstaklingar og velta því fyrir sér hvað hinir 330 þúsund ætli að gera á næstunni; eyða, spenna, spara eða ekki neitt.
Og markmið fimmmannanefndarinnar er að hafa áhrif á hegðun hinna 330 þúsundanna til að stilla hagkerfið af, örva það í niðursveiflu og kæla þegar hitnar í kolunum.
Miðstýrður áætlunarbúskapur af þessu tagi hefur verið reyndur á ýmsum sviðum en jafnan með ömurlegum afleiðingum. En hafa stýrvaxtaákvarðanir peningastefnunefndar jafn vond áhrif og þegar skriffinnur á skömmtunarskrifstofu ríkisins pantar 100 þúsund hægrifótarspariskó í sömu stærð í skóverslanir ríkisins fyrir jólin?
Stýrivextir hafa áhrif á ákvarðanir nær allra í hagkerfinu, á að kaupa íbúð, á að bæta við framleiðslulínu, er rétt að greiða niður skuldir. Að því leyti er ekki betra að verðlagsnefndir ríkisins skipti sér af peningamálum en til að mynda landbúnaði eða skóframleiðslu. Þær geta sent röng skilaboð út um allt þjóðfélagið með þeim afleiðingum að lánveitingar og fjárfestingar verða byggðar á röngum forsendum. Afleiðingarnar skila sér svo í reglubundnum fjármálakreppum.
En Seðlabankinn stýrir ekki aðeins verði á íslenskum krónum í lánsviðskiptum heldur hefur hann mikil afskipti af verði gjaldmiðilsins gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hefur undanfarin ár safnað miklu „vopnabúri“ eða gjaldeyrisforða í því skyni að „verjast“ þeim sem vilja kaupa og selja krónuna á „röngu“ verði að mati bankans.