Í kosningunum í október voru margir nýir einstaklingar kosnir á þing. Einn þeirra er Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sem situr á þingi fyrir vinstrigræna. Hann er í viðtali í DV sem út kom í gær. Þar talar hann meðal annars um fyrri stjórnmálastörf sín. Hann segist hafa komið heim frá námi 24 ára gamall í árslok 1972 og verið ráðinn kennari. Á svipuðum tímum hafi stjórnmálabarátta hans á Íslandi byrjað:
Það sem tók svo við þarna var annars vegar brauðstritið, ég fór að kenna í grunnskóla á Eyrarbakka og síðar hóf ég menntaskólakennslu í Reykjavík, árið eftir. Hins vegar labbaði ég mig inn í Fylkinguna, sem þá hét, og byrjaði að starfa þar. Það gekk þó illa, okkur nokkrum þótti Fylkingin ekki vera á réttri pólitiskri línu. Það varð til að hópur ungs fólks stofnaði það sem sem síðan voru stundum kölluð maóistasamtök, Einingarsamtök kommúnista (marx lenínistar) þekkt sem Eik (m-l). Á sama tíma voru til Kommúnistasamtökin marxistar-lenínistar, KSML, og nokkrir fleiri hópar; þó líklega ekki meira en fjögur samtök allt í allt. Þau voru dálítið að berjast innbyrðis en ekki þó alltaf, menn voru að leita að hinni réttu línu. Þetta litaði töluvert mitt líf því við vorum býsna dugleg. Þetta er það sem stundum er kallað villta vinstrið, hópar fólks sem ætluðu sér að byggja upp stjórnmálaflokk til vinstri við Alþýðubandalagið sem okkur þótt vera orðið helst til sósíaldemókratískt. Þetta tímabil stóð í um það bil tíu ár. Ég var formaður Eikarinnar og raunar einnig Kommúnistasamtakanna eftir að Eikin sameinaðist KSML, en það var alveg undir lokin og hafði lítil áhrif. Þetta starf fjaraði síðan út af ýmsum ástæðum. Meðal annars var það að þessi pólitíska lína rímaði kannski ekki alltaf vel við íslenskan veruleika og svo var hitt að fólkið sem stóð í stafninum var þarna að vaxa úr grasi, stúdentarnir voru allt í einu búnir í námi, farnir að vinna, komnir með fjölskyldu og börn og eldmóðurinn var kannski ekki sá sami. En á hitt ber að líta að stefnan beið að mörgu leyti pólitískt skipbrot. Stemningin minnkaði og okkur skorti kannski framsýni til að verða að alvöru pólitísku afli. Við til dæmis buðum aldrei fram til kosninga, litum svo á að við værum lítil og alltof veik til þess.
Samkvæmt þessu var Ari Trausti einn helsti forystumaður íslenskra kommúnista um margra ára skeið. Hann byrjar starfið 1973 og þetta tekur áratug. Undir lokin var hann formaður sameinaðs flokks kommúnista og það hefur þá líklega verið á fyrstu árum níunda áratugarins. Sem raunar er sami áratugur og þegar Berlínarmúrinn féll.
Í kosningabaráttunni á dögunum var lítið rætt um að fyrrverandi formaður kommúnistaflokks Íslands væri á leiðinni á þing. Slíkt þykir ekki meira tiltökumál en þegar menn skreyta sig með hamri og sigð.