Þarf að óttast þá sem ala á ótta?

Meðal þess sem oft er haft á móti stjórnmálamönnum er að þeir „ali á ótta“.

Þetta á við um marga stjórnmálamenn, í þeirri merkingu að þeir halda því fram að einhver ógn sé yfirvofandi, eða þegar skollin á, og að strax verði að grípa til einhverra aðgerða sem þeir leggi til, en andstæðingarnir vilji ekki eða skilji ekki.

Þessar viðvaranir stjórnmálamannanna geta verið á rökum reistar og þær geta verið úr lausu lofti gripnar. Þeir, sem eru sammála stjórnmálamanninum, finnst að hann sjái og skilji það sem öðrum sé hulið, að hann bendi á mjög brýn vandamál sem aðrir skelli skollaeyrum við. Þeir sem eru ósammála honum, segja að hann „ali á ótta“.

Umhverfismál eru skýrt dæmi. Víða um Vesturlönd eru stjórnmálamenn sem tala varla meira um neitt en mjög mikla vá sem þar sé fyrir dyrum. Mengun, bráðnun jökla, hlýnun jarðar, útblástur koltvísýrings, sorp, plast og svo framvegis. Þessir stjórnmálamenn segja að mannkynið sé komið á ystu nöf. Vesturlönd verði að gerbreyta lifnaðarháttum sínum.

Það má með sanni segja að þessir stjórnmálamenn ali á ótta. Þeir kynda undir hann samfellt og þeir sem andmæla þeim eru uppnefndir „afneitunarsinnar“. Menn geta deilt um hvort óttinn, sem þarna er alið á, er á rökum reistur eða ekki, aðkallandi eða ekki, en það ætti ekki að þurfa að deila um að þarna er alið á ótta. Hafi þeir rétt fyrir sér, sem segja mannkynið komið á ystu nöf, þá er mjög þakkarvert að þeir ali á réttmætum ótta.

Sama á við á mörgum sviðum. Margir stjórnmálamenn vara við misskiptingu í þjóðfélaginu og segja að hún geti valdið uppreisn og óeirðum. Aðrir segja að óheftur innflutningur fólks, úr framandi menningu, valdi spennu sem brjótast muni út í klofningi einstakra þjóðfélaga. Ýmsir óttast mjög hryðjuverk og segja kjósendum að grípa verði til mikilla öryggisráðstafana til að komast hjá þeim. Aðrir ala á ótta við einstakar stofnanir ríkisins. Margir hræða kjósendur með því að heilbrigðiskerfið þeirra sé hrunið og geti ekki hjálpað þeim ef sjúkdómar herja á þá.

Allir þessir stjórnmálamenn ala á ótta. Það þarf ekki endilega að vera neitt athugavert við það. Það sem máli skiptir er hversu mikið er til í málflutningnum hverju sinni. Hann getur verið studdur við vísindaleg rök, hann getur verið studdur við rök reynslunnar, söguleg rök, við áreiðanlegar upplýsingar og svo framvegis. Þetta geta verið ábendingar, röksemdir og upplýsingar sem mjög mikilvægt er að kjósendur opni augu og eyru fyrir. Þetta geta líka verið oftúlkanir, rangtúlkanir, misskilningur og vísvitandi rangindi sem mikilvægt er að verði hrakið með rökum.

En það, að ásaka stjórnmálamenn almennt fyrir að „ala á ótta“, getur verið mjög ósanngjörn árás á stjórnmálamenn fyrir að sinna mikilvægu hlutverki.