Hvað yrði sagt ef þingmaður Framsóknarflokks eða Sjálfstæðisflokks hótaði að draga fulltrúa í sjálfstæðu opinberu ráði fyrir dóm felli þeir ekki hið snarasta úr gildi ákvarðanir ráðsins? Ætli orðin „valdníðsla“ og „freki kallinn“ myndu heyrast? Ætli einhverjum þætti ekki sem menn væru að reyna að „taka málið úr faglegu ferli“?
Jón Þór Ólafsson alþingismaður Pírata skrifar í Fréttablaðið í dag að hann hafi ráðið sér lögfræðing sem muni draga nefndarmenn í Kjararáði fyrir dóm felli þeir ekki úr gildi ákvörðun ráðsins um launakjör þingmanna og ráðherra. Jón Þór vísar til þess að í lögum um Kjararáð segi:
Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
Eins og sjá má á línuritinu frá fjármálaráðuneytinu hér að neðan hafa laun þingmanna ekki fylgt almennri þróun undanfarinn áratug. Þau hafa lengstum verið 10 – 25% undir almennri þróun.
Ef Jóni Þór verður að þeirri ósk sinni að fyrri ákvarðanir Kjararáðs verði felldar úr gildi og þingfararkaup látið fylgja almennri launaþróun frá árinu 2006 má vera ljóst að þeir sem setið hafa á þingi undanfarinn áratug eiga von á um 10 milljónum króna í eingreiðslu til að bæta þeim upp að hafa dregist svo aftur úr hinni almennu þróun kjaramála á vinnumarkaði sem lög um kjararáð mæla fyrir um að þeir eigi að fylgja.
Því má hins vegar fagna í þessu samhengi að Jón Þór Ólafsson alþingismaður skuli hafi mótað sér ákveðna afstöðu þessa máls. Hann náði nefnilega þeim einstæða árangri á síðasta þingi að sitja hjá í 75% þeirra atkvæðagreiðslna þar sem hann var á annað borð mættur í þingsal. Alls sat Jón Þór hjá 1.224 sinnum en tók afstöðu í 391 skipti á þeim rúmu tveimur árum sem hann sat á þingi. Ef þingfararkaupi hans á síðasta kjörtímabili er skipt niður á þessa iðju þá fékk hann um 5 milljónir króna fyrir að kynna sér málin og taka afstöðu en 15 milljónir króna fyrir að mæna út í loftið.
Það fer því kannski bara best á því eins og hér hefur áður verið nefnt að þingmenn fái engin laun fyrir störf sín og þingið komið saman í tvo mánuði á tveggja ára fresti.