Við umburðarlyndir útilokum samstarf við öfgamennina

Það hefur verið forvitnilegt að hlusta á Samfylkingarmenn ræða um afhroð flokks síns í kosningunum á dögunum. Mjög oft hefur mátt heyra setningu eins og „Samfylkingunni var ætlað að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn, en…“

Vinstrimenn eru margir með Sjálfstæðisflokkinn á heilanum. Það vantar „mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn“. Við ríkisstjórnarmyndun skiptir þá mestu máli að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki í ríkisstjórn. Minna máli skiptir hverju ríkisstjórnin kemur í verk. Margir vinstrimenn telja að það versta sem Samfylkingin hafi gert frá upphafi hafi verið að setjast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum vorið 2007. Ekki vegna verka þeirrar stjórnar, heldur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn var með henni í stjórn.

Vinstrimönnum dettur hins vegar næstum aldrei í hug að mögulega séu þeir sjálfir ofstækismenn.

Það er svolítið merkilegt hve margir eru fljótir að verða ósveigjanlegir þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum. „Útiloka“ til dæmis stjórnarsamstarf með hinum eða þessum, strax í upphafi.

Það getur verið skiljanlegt að menn útiloki fyrirfram stjórnarsamstarf með tilteknum flokki, ef þeir telja forystumenn hans vera þannig að ekki sé hægt að eiga við þá samstarf um mikilvæg mál. Svo getur verið skiljanlegt ef menn vilja ekki eiga samstarf við svo og svo mikinn fjölda af flokkum. Ekki fimm flokka stjórn. Eða ekki fjögurra flokka stjórn.

En er ekki hálfgert ofstæki að útiloka einhvern flokk, bara af því að hann er langt frá í stærstu ágreiningsefnum? Það er ekkert að því að segjast ekki fara í stjórn nema tilteknum skilyrðum sé fullnægt og að menn telji einhvern ákveðinn flokk ólíklegan til að samþykkja þau, en ef forystumönnum þess flokks er persónulega treystandi ætti ekki að vera neitt að því að ræða við þá, ef þeir vilja.

Nema auðvitað að menn meini ekkert með því þegar þeir segja að „málefnin eigi að ráða“.

Við ríkisstjórnarmyndun eiga menn að horfa til þess, hvaða málum þeir geta náð fram og hvaða mál, sem samstarfsflokkarnir bera fyrir brjósti, þeir geta samþykkt. Þar er auðvitað nærtækast að flokkarnir horfi til þeirra flokka sem næstir þeim eru. En það er ekki nægilegt. Á hverju kjörtímabili koma upp mál sem reyna á stjórnmálamenn en ekki er samið um fyrirfram. Það getur þurft að standa vörð um gildandi reglur eða bregðast við óvæntum aðstæðum. Þá þurfa ólíkir stjórnarflokkar að geta komist að niðurstöðu sem þeir virða allir og fylgja eftir. Þar reynir oft á persónulegt þrek stjórnmálamanna og traust milli ólíks fólks. Slíkt traust getur myndast þvert á flokkslínur. Við stjórnarmyndun skiptir máli hvort forystumenn telja líkur á slíku trausti, sem geti staðið af sér nokkurra ára kjörtímabil. Það getur skipt meira máli en einstök útfærsluatriði í stjórnarsáttmála.