Í gær var þeirri spurningu velt upp hér hversu burðugir litlir þingflokkar væru til að takast á við þingstörfin. Það blasir við að 3 – 5 manna þingflokkar eiga til að mynda erfitt með að manna 8 fastanefndir þingsins þar sem öll efnisleg vinna við lagafrumvörp fer fram auk annarra starfa. Var jafnframt bent á að þingmenn minnsta þingflokksins á þessu kjörtímabili hefðu oft setið hjá í atkvæðagreiðslum í þinginu og borið við fáfræði um alls kyns mál sem komu til atkvæða. Það gerðist til að mynda í atkvæðagreiðslunni um búvörusamningana þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata sagðist ekki vita hvað myndi gerast ef búvörsamningarnir yrðu felldir og því treysti hann sér ekki til að taka afstöðu.
Björn Leví Gunnarsson varaþingmaður Pírata skrifaði að þessu tilefni á Facebooksíðu Andríkis:
Píratar taka afstöðu til fleiri mála en samfó. Aðeins færri en VG og BF.
Líklega hefur Björn Leví þessa visku sína af nýjum vef þar sem völdum upplýsingum af alþingisvefnum er safnað saman. Hvort sem það er með vilja gert eður ei er einn af þingmönnum Pírata á þessu kjörtímabili ekki hafður með í samantektinni á þessum fína vef. Það er Jón Þór Ólafsson sem sat á þingi 2013 – 2015 og er nú efsti maður á framboðslista Pírata í suðvesturkjördæmi.
Atkvæðaskrá Jóns Þórs Ólafssonar á árunum 2013 – 2015 má hins vegar finna á vef alþingis og hún er svona:
Já: 331 sinni. Nei: 95 sinnum. Greiðir ekki atkvæði: 1285 sinnum. Fjarverandi: 219 sinnum.
Jón Þór treysti sér ekki til að taka afstöðu til mála í 67% tilvika.
Ef aðeins er tekið hlutfallið þar sem þingmaðurinn var viðstaddur atkvæðagreiðslu þá sat hann og boraði í netið í 75% tilfella.