Í gær urðu þau pólitísku tíðindi að formaður Viðreisnar lýsti því yfir að flokkurinn myndi ekki setjast í ríkisstjórn að loknum kosningum. Hann orðaði það reyndar ekki nákvæmlega þannig, en merkingin er augljós.
Í bréfi til leiðtoga Pírata sagði Benedikt Jóhannesson:
Það er augljóst að Viðreisn blæs ekki lífi í ríkisstjórn sem kjósendur hafa fellt. Það væri gagnstætt öllum okkar hugsjónum.
Í þessu felst auðvitað, ef menn hugsa sig örlítið um, að Benedikt vill ekki að Viðreisn taki þátt í stjórnarmyndun að loknum kosningum.
Hann veit að í kosningum býður „ríkisstjórnin“ sig ekki fram. Ekki frekar en „stjórnarandstaðan.“ Í framboði eru fjölmargir flokkar, þar á meðal þeir sem núna eru í ríkisstjórn og þeir sem núna eru í stjórnarandstöðu. Kjósendur fella því ekki ríkisstjórnina sérstaklega, en niðurstöður kosninganna geta orðið þær að stjórnarflokkarnir ná ekki meirihluta saman.
En þetta mun ekki aðeins eiga við um stjórnarflokkana. Þetta mun eiga við um mjög marga aðra flokka.
Ef það að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ná ekki nægum þingmannafjölda til að mynda ríkisstjórn þýðir að Viðreisn getur ekki myndað stjórn með þeim, af því að kjósendur hafi hafnað stjórn þeirra, hlýtur það að eiga við um alla aðra flokka sem ekki ná meirihluta saman. Kjósendur hafa jafn mikið hafnað þeim.
Til skýringar má setja upp dæmi.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fá samtals 31 þingmann kjörinn. Vantar þannig einn upp á að mynda meirihluta.
Vinstrigrænir, Samfylkingin, Björt framtíð og Píratar fá samtals 29 þingmenn kjörna. Vantar þar með þrjá til að mynda meirihluta.
Viðreisn fær 3 menn kjörna. Hún getur myndað meirihlutastjórn með hvorum hópnum sem er.
Samkvæmt yfirlýsingu Benedikts getur Viðreisn ekki myndað stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki við þessar aðstæður. En hvernig ætti Viðreisn þá að geta myndað stjórn með hinum flokkunum? Ef Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki er hafnað með 31 manni þá er VG, Samfylkingu, Bjartri framtíð og Pírötum enn meira hafnað með 29 mönnum. Viðreisn getur ekki ætlað sér að blása lífi í stjórnarandstöðu sem kjósendur hafa ekki veitt meirihluta.
Viðreisn ætlar því ekki að mynda stjórn með neinum þeim flokkahópi sem ekki nær meirihluta án Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson veit alveg hvað hann segir. Hann kann á tölur. Hann er einfaldlega að hafna því að Viðreisn fari í stjórn með flokkahópi sem ekki hefur fengið meirihluta.