Að mörgu leyti er eins og alþingiskosningar séu alls ekki yfirvofandi. Það er næstum engin umræða um mikilvægustu málefnin. En á móti kemur að umræðan um aukaatriði er þeim mun meiri. Margir frasar fá mikla athygli en litla gagnrýni.
Stjórnarflokkarnir mættu kynna fólki vandlega hvernig allar helstu hagstærðir hafa breyst á kjörtímabilinu, hvernig kaupmáttur næstum allra hópa hefur hækkað meira en dæmi eru til um á síðustu áratugum, hvernig verð ótal nauðsynja hefur lækkað vegna afnáms tolla og vörugjalda, hvernig atvinnuleysi hefur nær horfið, hvernig uppgangur einkennir flestar greinar í atvinnulífinu.
Öll þessi mikilvægu og raunverulegu mál hafa breyst með mjög jákvæðum hætti á allra síðustu árum.
En þau fá næstum enga umræðu. Stjórnarandstöðunni dettur auðvitað ekki í hug að ræða þau og fréttamenn, álitsgjafar og þáttastjórnendur hafa engan áhuga á þeim heldur.
En hver bjóst við því? Það er hlutverk stjórnarflokkanna að halda þessum raunverulegu atriðum á lofti. Þeir verða að tryggja að kjósendur viti af þeim, þegar þeir fara í kjörklefann og ákveða hvaða stefnu skuli taka næstu fjögur árin.
Auðvitað munu ekki allir láta slík atriði ráða atkvæði sínu. Margir munu til dæmis falla fyrir innantómum frösum sem ekki eru studdir við neitt sem máli skiptir. Það hefur auðvitað alltaf verið þannig, í öllum löndum, að fjöldi manns kýs eftir einhverju slíku. Menn geta til dæmis horft vestur til Bandaríkjanna þar sem tugir milljóna eru ákveðnar að kjósa vegna einhverrar tilfinningar sem hvorki rök né staðreyndir breyta.
Með þessu er alls ekki sagt að heimurinn sé svo einfaldur að allir þeir sem horfi á staðreyndir kjósi stjórnarflokkana en allir þeir sem séu haldnir ranghugmyndum geri það ekki. Engu að síður er það þannig, minna en tveimur vikum fyrir kosningar, að stjórnarflokkarnir hlífa stjórnarandstöðunni óþarflega við áberandi og vandaðri kynningu á þróun íslensks efnahagslífs á þessu kjörtímabili.
Kaupmáttur nær allra hefur batnað mjög verulega, launamanna, aldraðra, öryrkja og annarra hópa. Atvinnuleysi er nær horfið. Verðbólga er langt undir markmiðum Seðlabankans. Vanskil eru í lágmarki. Og þá trúir stjórnarandstaðan því að nauðsynlegt sé að gera stórfelldar „breytingar“ og „endurræsa“ Ísland.