Mikil hætta er á því að eftir tvær vikur taki vinstristjórn við völdum. Til að koma í veg fyrir það þarf stór hluti kjósenda að vakna upp við vondan draum einhvern tíma á allra næstu dögum.
Landsmenn ættu því að búa sig undir nýja vinstristjórn. Stjórn að hætti Jóhönnu og Steingríms, stjórn eins og þá sem sótti um aðild að Evrópusambandinu þótt ekkert benti til þess að meirihluti þings eða þjóðar vildi fara þangað inn, stjórn sem reyndi aftur og aftur að gera skattgreiðendur ábyrga fyrir Icesave, stjórn sem efndi til pólitískra réttarhalda þegar Geir Haarde var dreginn fyrir landsdóm, stjórn sem hækkaði skatta að meðaltali á tveggja vikna fresti allt fjögurra ára kjörtímabilið.
Slík stjórn er á leiðinni.
Píratar, þessir sem þriðji hver ungur Íslendingur ætlar að kjósa, hafa nú lýst yfir að þeir vilji eingöngu mynda stjórn með vinstriflokkunum. Og vinstriflokkarnir eru ákafir í þá stjórn, þó einhverjir þeirra muni ekki segja frá því fyrirfram til að vara ekki kjósendur við.
Og þá verður haldið áfram þar sem Jóhönnustjórnin hætti.
Forsætisráðherra verður Birgitta Jónsdóttir. Hún mun sjá um að stilla saman strengina í stjórnarsamstarfinu, „smala villiköttunum“ eins og Jóhanna Sigurðardóttir lýsti hlutverkinu á sínum tíma. Alkunn samstarfshæfni hennar mun blómstra í embættinu.
Svo eru miklar líkur á því að Smári McCarthy verði innanríkisráðherra. Hann mun því verða yfirmaður lögreglunnar, landamæraeftirlitsins, útlendingastofnunar, fjarskiptamála, sveitarstjórnarmála og samgöngumála í landinu.
Steingrímur J. Sigfússon mun snúa aftur í fjármálaráðuneytið. Undir hann munu skattar heyra, tollar og ríkisfjármál.
Fulltrúi frá einhverjum Samfylkingarflokkanna þriggja, líklega Benedikt Jóhannesson frá Viðreisn, sest í utanríkisráðuneytið og aðlögunin að Brussel hefst að nýju sama dag.
Katrín Jakobsdóttir fer aftur í menntamálaráðuneytið og þar bíður eftir henni aðalnámskráin sem hún setti sjálf í síðustu vinstristjórn. Kynjafræði frá leikskólum og til loka háskóla ef að líkum lætur.
Vinstrigrænir og Píratar munu skipta atvinnumálunum á milli sín. Björn Valur Gíslason, vinstri hönd Steingríms J. Sigfússonar, verður orðinn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir tæpar þrjár vikur. Einhver Pírati, ekki ólíklega Ásta Guðrún Helgadóttir, fær viðskiptin og iðnaðinn.
Samfylkingin fær umhverfismálin. Komist Oddný Harðardóttir ekki á þing verður Árni Páll Árnason þar.
Nú eru minna en tvær vikur í haustkosningarnar. Eftir þrjár vikur tekur ríkisstjórn eins og þessi við. Og hún mun sitja í fjögur ár. Atkvæði greitt Pírötum, VG, Samfylkingu, Viðreisn og Bjartri framtíð er atkvæði greitt vinstristjórn.