Dreka- og Bakkaflokkarnir fá hæstu einkunn í loftslagsprófi kommahópsins

Ráðherrar VG og Samfylkingar skála við fulltrúa olíufélaga fyrir samningum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu í janúar 2013.

Hópur sem nefnist „París 1,5“ hefur gefið stjórnmálaflokkunum einkunnir fyrir loftslagsmál. Talan 1,5 í nafni hópsins vísar væntanlega til þeirrar hámarkshlýnunar andrúmsloftsins í °C sem Parísarsamkomulagið um loftslagsmál frá síðasta ári gerir ráð fyrir.

loftslagsprof_paris1kommar5_450px

Einkunnirnar sem 1-komma-5 hópurinn gaf stjórnmálaflokkunum.

Núverandi ríkistjórnarflokkar, sem undirrituðu Parísarsamkomulagið gegn loftslagsbreytingum fyrir Íslands hönd, fá 0,4 og 0,7 í einkunn af 10 mögulegum. Og teljast líklega heppnir að vera fyrir ofan núllið því hægt er að fá mínusstig ef menn svara mjög rangt að mati prófhaldara.

VG og Samfylking, sem hófu olíuvinnsluferlið á Drekasvæðinu, settu milljarða af fé skattgreiðenda í málmbræðsluævintýrið á Bakka og umhverfisskaðlega íblöndun í eldsneyti landsmanna, standast prófið hins vegar og fá 5,4 og 6,4.

Og ekki nóg með það heldur fá bæði VG og Samfylkingin fá fullt hús stiga fyrir að vera andvíg olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Um þennan lið prófsins segir á vef Parísar 1,5:

Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Hér var hægt að fá mínusstig, þar sem þeir flokkar sem taka einarða stefnu með olíuvinnslu fá mínus stig – þeir sem ekkert nefna um málið fá 0 og þeir sem taka einarða afstöðu gegn olíuvinnslu fá plús .

Flokkarnir sem hófu olíuvinnsluferlið fá ekki ekki mínus 20 stig fyrir að ýta því úr vör eins og ætla mætti af forsendum prófsins heldur plús 20 stig fyrir að segjast vera á móti því sem þeir gerðu sjálfir!