Vinstri hreyfingin þarf vissulega að taka það fram að hún sé græn

Vinstri grænir, segja þeir. Það er ekki að ástæðulausu að vinstri menn þurfa að taka það sérstaklega fram þegar þeir ætla sér að vera grænir.

Í nýlegu myndbandi sem gengur á netinu hefur til að mynda verið varpað ljósi á það hvernig vinstri grænir hafa gengið á bak orða sinna um að ekki yrði um nýja stóriðju að ræða hér á landi. Þvert ofan í loforðin hafa þeir látið skattgreiðendur styrkja slík fyrirtæki um milljarða króna með beinum styrkjum úr ríkissjóði og skattfríðindum.

Hér hefur sömuleiðis verið rakið hvaða afleiðingar ýmsar aðgerðir vinstri stjórnarinnar gagnvart bíleigendum höfðu á umhverfið.

Árið 2009 hækkaði vinstri stjórnin skatta á bensín langt umfram skatta á Dieselolíu. Það var gert í nafni umhverfisins. Síðan hefur bensínlítrinn borið um 10 krónum hærri skatt á lítrann en Dieselolían. Á árunum þar á eftir breytti stjórnin einnig sköttum á bíla, vörugjöldum og bifreiðagjöldum, bensínbílum í óhag.

Þetta var engin tilviljun. Það var gömul kredda í Evrópusambandinu að Dieselbílar væru umhverfisvænni en bensínbílar. Og þennan misskilning taldi vinstri stjórnin sig þurfa að „innleiða“ á Íslandi.

En á meðan Steingrímur og Indriði voru að umturna öllum eldsneytis- og bílasköttunum hér á landi til að reka fólk úr bensínbílum yfir í Dieselbíla hafði runnið upp fyrir ríkisstjórnum vítt og breitt um Evrópu að mengunin frá Dieselbílum er margfalt meiri og verri en frá bensínbílum.

Svo langt hefur þessi viðsnúningur gengið að menn ræða í alvöru í stórborgum Evrópu að greiða fólki fyrir að losa sig við Dieselbílana sem það var áður hvatt til að kaupa!  Ástæðan er sú að NOx og sótmengun frá Dieselbílunum er margföld á við það sem stafar frá bensínbílunum. Sót og NOx eru hættuleg öndunarfærum manna.

Já hreina vinstri stjórnin hvatti menn til að nota meira mengandi eldsneyti og bíla. Hún lagði hærri skatta á umhverfisvænna eldsneytið.

Þetta er auðvitað sláandi dæmi um að stjórnmálamenn eiga ekki að vera að skipta sér af tækniþróun eða reyna að hafa vit fyrir neytendum með skattalegri mismunun. Bensín- og Dieselbílar eiga bara að bera sömu skatta. Það þarf að lækka bensínskattana niður í sömu krónutölu og Dieselolían ber.

Því miður eru þessir mengunarhvatar vinstri stjórnarinnar enn til staðar í skattalögunum. Íslendingar eru enn með margvíslegum sköttum hvattir til að kaupa frekar Dieselbíl en bensínbíl. Dieselbílar eru almennt um 12% dýrari í innkaupum en sambærilegir bensínbílar og varahlutir í vélar þeirra eru einnig dýrari. Ofan á mengunina bætist því að Íslendingar eru á sóa fjármunum í innkaup dýrari bíla en þeir myndu kaupa ef skattkerfið hyglaði ekki dýru Dieselbílunum.

Sömu sorgarsöguna má segja einnig segja af lagaboði vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlegt eldsneyti. Eins og hér hefur áður verið sagt frá voru í tíð vinstri stjórnarinnar leiddar í lög kvaðir sem þvinga bensínstöðvar til að blanda dýrum og orkusnauðum jurtaafurðum í bensín og Dieselolíu.

Síðar kom upp úr kafinu að frumvarp Steingríms J. Sigfússonar um málið hafði verið skrifað í leynd af einkafyrirtæki út í bæ sem ætlaði sér að hagnast verulega á þessari kvöð. Það eitt og sér ætti að duga til að þingmenn sammælist um að afnema lögin. Virðing alþingis er undir. Þingið getur ekki látið fyrirtæki sem eiga beinna hagsmuna að gæta skrifa lögin í landinu.

Vínandinn eða korn-etanólið, sem nú er blandað í bensín, er dýrara í innkaupum en bensín. Etanólið er einnig um þriðjungi orkuminna en óblandað bensín. Íblöndunin leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar og þar með aukins innflutnings eldsneytis.

Bensínlítrinn kostar nú um 40 krónur á heimsmarkaði. Ríkissjóður styður innflytjendur hins vegar um 70 krónur fyrir hvern lítra sem þeir flytja inn af etanóli og blanda í bensínið. Hið sama gildir um jurtaolíu sem blandað er í Diesel en hún er tvöfalt dýrari en venjuleg Dieselolía í innkaupum. Þetta er gert með því að veita innflytjendum um 70 króna skattaívilnun af hverjum lítra íblöndunarefna, meðal annars af þeim sköttum sem eiga ella að fara í viðhald vegakerfisins. Skattfríðindin renna hins vegar að mestu leyti í vasa erlendra framleiðenda á þessum íblöndunarefnum því þau eru dýrari í innkaupum og auk þess er verulegur kostnaður við íblöndunina sjálfa og sérstakt birgðahald og flutninga fyrir íblöndunarefnin.

Skógar eru jafnframt ruddir og votlendi ræst fram til að rýma fyrir ræktun þeirra matjurta sem þarf til að framleiða þetta eldsneyti. Þar með eykst losun gróðurhúsalofttegunda og líffræðilegum fjölbreytileika er ógnað. Framleiðsla þessa eldsneytis getur einnig dregið úr og haft óæskilegar sveiflur á framboð matvæla sem bitnar á hungruðu fólki. Um þetta hefur til dæmis Björn Lomborg ritað  The great biofuels scandal – Biofuels are inefficient, cause hunger and air pollution, and cost taxpayers billions.

Já líklega er betra að taka það fram í þessu tilviki að menn séu grænir því það er alls ekki augljóst.