Flokkarnir hafa ólíkar aðferðir við að stilla upp á framboðslista sína.
Sjálfstæðisflokkurinn fer fyrst og fremst þá leið að leyfa félagsmönnum að ráða. Efstu sætin ráðast í skriflegri kosningu þar sem hver fær sinn kjörseðil sem svo er talinn. Í fimm kjördæmum af sex var sú aðferð notuð.
Vinstrigrænir hafa næstum nákvæmlega þveröfuga aðferð. Í einu kjördæmi var haldið prófkjör. Það fór fram í pósti og þurfti að gera tvisvar því fyrstu umferð var klúðrað. En loks kom listi eftir prófkjör í norðvesturkjördæmi. Annars staðar var skipuð uppstillingarnefnd sem fundaði bak við luktar dyr en svo var niðurstaðan kynnt og samþykkt á félagsfundi.
Viðreisn hafði engin prófkjör. Þar voru listarnir bara tilkynntir. Og til að fá sem mesta fjölmiðlaumfjöllun var send út sérstök frétt um einstaka frambjóðendur. Fréttatilkynningar eins og Jón Jónsson gengur til liðs við Viðreisn, voru sendar út og fjölmiðlamenn birtu þær umhugsunarlaust eins og stórfréttir væru á ferð. Efstu menn Viðreisnar hafa engan lýðræðislegan stuðning að baki sér. Þeir bara „ákváðu að ganga til liðs við Viðreisn“.
Píratar hafa auðvitað mjög sérstaka sögu við uppstillingu lista sinna. Þar fara fram netprófkjör, þar sem engir kjörseðlar liggja fyrir, frambjóðendur mega ekki fá neinn til að ganga til liðs við Pírata til að styðja sig og eftir prófkjör er kosinn listi felldur í nýrri rafrænni kosningu, helsti forystumaðurinn er af mörgum pírötum sagður hafa þrýst á menn með áróðri og hótunum, og svo er kosinn nýr listi sem er forystunni meira að skapi.
Samfylkingin er meira á prófkjörslínunni. Hún hélt prófkjör á suðvesturhorninu og í norðvesturkjördæmi, þótt í því prófkjöri hafi bara verið valið milli tveggja einstaklinga. Í hinum kjördæmunum tveimur voru ekki haldin prófkjör.
Fjölmiðlar ræða lítið um ólíkar aðferðir flokkanna. Engin viðtöl við heimspekinga um mikilvægi þess að lýðræðið ráði við val á listum. Engar spurningar til efstu manna, þar sem engin prófkjör eru haldin, hvort þeim finnist eðlilegt að fá efstu sætin bara með fréttatilkyningum. Engin viðtöl við tölvunarfræðinga um kosti og galla rafrænnar kosningar.
Ætli umræðan hefði verið öðruvísi ef það væru aðrir flokkar sem beittu lýðræðislegum aðferðum? Ef Viðreisn og Vinstrigrænir hefðu haldið prófkjör með þúsundum þátttakenda en Sjálfstæðisflokkurinn bara sent frá sér fréttatilkynningu: Páll Magnússon gengur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn?
Hvernig hefðu fjölmiðlar látið ef til dæmis Páll Magnússon hefði verið settur í efsta sæti Sjálfstæðisflokksins án þess að óbreyttir flokksmenn hefðu haft neitt um það að segja?
Eða ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ákveðið að ógilda prófkjör í einhverju kjördæmi sínu og kjósa þar aftur og svo væri fjöldi manns að segja úr flokknum vegna ógnana Bjarna Benediktssonar? Hversu margar fréttir yrðu sagðar af því? Hversu oft yrði það rifjað upp fram að kosningum.
Í norðvesturkjördæmi kepptu tveir einstaklingar um efsta sæti Samfylkingarinnar. Kona sem var fyrir á þingi og karlmaður sem ekki hefur setið á þingi. Karlinn vann. Konan verður ekki á listanum. Hvernig hefðu fréttamenn fjallað um það ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt í hlut?