Það er algengt að fyrirtæki gerist „styrktaraðilar“ einhvers sem aðrir reka og vekur athygli. Enn algengara er að fyrirtæki segist vera „stoltur styrktaraðili“. Heimsþekkt stórfyrirtæki eru „stoltir styrktaraðilar“ ólympíuleikanna, Evrópumótsins í knattspyrnu og flestra þeirra íþróttamóta sem margir vilja horfa á.
Opinberar stofnanir fá líka styrktaraðila. Fyrirtæki styrkja spítala og menningarstofnanir, jafnvel mjög veglega, og teljast síðan til velunnara þeirra. Þetta þarf alls ekki að vera gert af sýndarmennsku í auglýsingaskyni. Mjög oft býr vafalaust að baki einlægur áhugi eigenda eða stjórnenda fyrirtækisins á því málefni sem styrkt er. Listasaga heimsins væri mjög miklu fátækari ef ekki hefðu verið auðugir menn sem lögðu mikið af mörkum til að aðrir gætu búið til listaverk.
Nú á dögum er einn styrktaraðili sem ekki fær alltaf þá viðurkenningu sem hann á skilið. Þessi styrktaraðili er meira að segja aðalstyrktaraðili mjög margra menningarstofnana á Íslandi.
Ögmundur Jónasson alþingismaður, einn þeirra sem ákveðið var í vikunni að svipta umboði sínu fyrr en stjórnarskráin gerir ráð fyrir, þótt enn sé hægt að afturkalla þá röngu ákvörðun, vakti athygli á þessum fórnfúsa aðalstyrktaraðila á heimasíðu sinni nýlega. Þar sagði Ögmundur frá því að sagt hefði verið frá því að öflugt fjármálafyrirtæki væri nú aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en benti á að þetta væri rangt og það þyrfti að leiðrétta:
Því það erum við, skattgreiðendur, og erum stolt af því. Nettó framlag ríkisins og Reykjavíkurborgar til Sinfóníuhljómsvetar Íslands var á síðasta ár eitt þúsund eitt hundrað, þrjátíu og þrjár milljónir og þrjátíu þúsund krónur. Þar af rúmar tvö hundruð milljónir frá borginni. Sértekjur námu í fyrra eitt hundrað níutíu og átta milljónum og sjöhundruð þúsund krónum.
Ögmundur benti á að þar sem fjármálafyrirtækið ætlaði að leggja til tæplega 90 milljónir króna næstu fjögur árin væri það tæpast aðalstyrktaraðilinn, heldur væru það skattgreiðendur.
Þetta er þörf ábending hjá Ögmundi, án þess að gert sé lítið úr tæplega 90 milljóna króna styrk þessa einkafyrirtækis við hljómsveitina. Það er æskilegt að minna reglulega á hversu mikið fé er tekið frá skattgreiðendum til að reka ólíkar stofnanir. Miðað við tölur Ögmundar eru það um fimm milljarðar króna á hverju kjörtímabili sem skattgreiðendur eru skattlagðir fyrir Sinfóníuhljómsveitina.
En annað hjá Ögmundi er eftirtektarvert og stingur í stúf við annað í texta hans. Flest sem hann segir eru upplýsingar, sem eru annað hvort réttar eða rangar og má fletta upp ef einhver efast um þær, sem enginn hefur gert. En svo kemur smáatriði sem er kannski ekki svo mikið smáatriði.
Það eru orðin frá eigin brjósti Ögmundar, „og erum stolt af því“.
Hver eru það sem eru stolt af fjárgreiðslum skattgreiðenda til Sinfóníunnar? Hverjir eru það sem ganga um og hreykja sér af þessum greiðslum sínum? Eru það þessir styrktaraðilar, „skattgreiðendur“, sem eru að rifna úr monti yfir greiðslum sínum?
Þeir sem eru sannfærðir um að skattgreiðendur séu stoltir af greiðslunum, eru þeir tilbúnir að gera greiðslurnar valkvæðar? Að setja greiðsluseðil í heimabanka hvers og eins fyrir hans hluta, reiknað eftir skattprósentu?
Það mætti kannski bjóða upp á það sama fyrir Ríkisútvarpið? Það er sameign okkar allra, fyrir okkur öll, í þágu okkar allra, eins og þeir segja í sjálfshólsþáttunum sem þeir eru alltaf að gera um sjálfa sig í Efstaleiti 1.
Hversu margir af þessum stoltu skattgreiðendum vilja í raun láta taka af sér peninga til að halda þessum stofnunum úti?