Ekki eru allir metnir að verðleikum í stjórnmálaumræðunni. Tvo hópa má sérstaklega nefna, þótt ólíkir séu. Öðrum er hampað að óþörfu. Hinn nýtur ekki alltaf þess stuðnings sem hann ætti skilið.
Þetta eru Hinir óumdeildu og Hinir umdeildu.
Hverjir eru þessir umdeildu? Og hverjir eru þessir óumdeildu?
Er það kannski þannig að þeir umdeildu eru einhverjir sem vinstrimenn þola ekki? Einhverjir sem starfsmenn Ríkisútvarpsins vilja ekki hafa við völd? Hvaða stjórnmálamenn eru sífellt vefengdir? Ef þeir segja eitthvað sem máli skiptir eru alltaf fundnir sérfræðingar til að draga orð þeirra í efa.
Og hvaða stjórnmálamenn eru það sem fá bómullarmeðferð? Nokkrir virðast alltaf fá hana, en svo eru aðrir sem fá hana rétt á meðan þeir eru bornir saman við einhverja sem fréttamönnum finnst enn verri.
Þegar nógu lengi hefur verið hamrað á því að einhverjir stjórnmálamenn séu „umdeildir“, byrja stuðningsmenn þeirra að hika. Er minn maður svona umdeildur, byrja þeir að hugsa. Verðum við þá ekki að fá einhvern óumdeildari, verður næsta spurning.
En það að stjórnmálamaður sé „umdeildur“, getur það ekki verið vísbending um að hann standi sig í baráttunni? Stjórnmálamaður, sem andstæðingarnir vilja að ráði sem mestu, er hann endilega réttur maður á réttum stað?
Það þarf ekki að vera galli að þora að synda á móti straumnum.
Stjórnmálamenn eiga að vinna hugsjónum sínum og flokks síns fylgi. Þeir eiga ekki að elta almenningsálitið eins og það sveiflast frá einum degi til annars. Þeir eiga að þora að tala fyrir skoðunum sem njóta minnihlutastuðnings og rökstyðja þær þannig að fleiri og fleiri skilji. Þeir eiga ekki að gefast upp þegar á móti blæs. Þeir eiga ekki að gefast upp fyrir andstæðingunum í hvert sinn sem þeir æsa sig.
Slíkir stjórnmálamenn, að minnsta kosti ef þeir eru ekki langt á vinstri vængnum, verða auðvitað fljótt „umdeildir“.
Ef menn vilja ekki stjórnmálamenn sem eru „umdeildir“ eru þeir um leið að auka vægi þeirra æstustu í stjórnmálaumræðunni. Það eru þeir æstu sem eiga auðveldast með að koma „umdeilda“-stimplinum á andstæðinga sína.
Með þessu er ekki sagt að stjórnmálamenn séu því betri sem þeir eru umdeildari. Menn geta verið umdeildir af því að þeir svífist einskis, svíki öll loforð og séu á allan hátt undirförulir. Það getur vel verið ástæða til að hafna umdeildum stjórnmálamönnum. En ekki vegna þess að þeir séu umdeildir. Andstæðingarnir geta gert alla menn „umdeilda“.