Af umræðunni eftir prófkjör helgarinnar er ljóst að prófkjörsframbjóðendurnir voru í raun aðeins tveir. Annar frambjóðandinn heitir Allir Karlar, og hann vann. Hinn frambjóðandinn heitir Allar Konur, og hann tapaði.
Eða þetta mætti ætla af fjölmiðlaumræðunni. Konur eiga ekki upp á pallborðið. Konum er hafnað. Konur fá ekki að vera með. Konur gjalda fyrir að vera konur.
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík buðu sig fram 15 einstaklingar, 8 karlar og 7 konur. Þegar 15 bjóða sig fram verður niðurstaðan sú að 9 frambjóðendur ná því ekki að verða meðal sex efstu. Í þessu prófjöri voru það 5 karlar og 4 konur sem ekki náðu í hóp sex efstu.
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðvesturkjördæmi buðu sig einnig fram 15 einstaklingar og aftur voru það 8 karlar og 7 konur. Þar voru það 4 karlar og 5 konur sem ekki náðu í hóp sex efstu.
Í suðurkjördæmi buðu 11 einstaklingar sig fram hjá Sjálfstæðisflokknum, 8 karlar og 3 konur. Aðeins voru birt úrslit í fimm efstu sætin. Af frambjóðendunum 11 voru fimm karlar og ein kona sem ekki náðu í hóp fimm efstu.
Í norðvesturkjördæmi buðu 10 einstaklingar fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, 7 karlar og 3 konur. Röðun fjögurra efstu var birt eftir prófkjörið, karlmaðurí fyrsta og þriðja sæti, kona í öðru og fjórða. Þannig sést að fimm karlar og ein kona náðu ekki í hóp fjögurra efstu.
Frambjóðendum gengur misvel í prófkjöri. Einhverjir ná því sem þeir stefndu að en fleiri verða líklega fyrir vonbrigðum. Margir karlmenn ná ekki þeim árangri sem þeir vonuðu. Hver ætli sé skýringin á því? Getur verið að þeir hafi verið metnir af verkum sínum, reynslu sinni, stefnu sinni, kosningabaráttu sinni eða einhverju slíku en hins vegar hafi konurnar, sem ekki náðu árangri, verið metnar eingöngu eftir kynferði sínu?
Það eru örugglega mjög mörg atriði sem skipta máli þegar fólk raðar á prófkjörsseðilinn. Margir eru fyrst og fremst að hugsa um einhverja fáa frambjóðendur, styðja þennan af ákafa en geta ekki hugsað sér þennan. Hinum er svo raðað eftir einhverri tilfinningu eða jafnvel handahófi. Flestir sem hafa kosið í prófkjöri þekkja þetta vel. Mér líkar við þessa þarna. Æ hvað hefur þessi nú gert? Er þessi ekki umdeild? Gæti þessi ekki náð til unga fólksins? Æ hún var svo indæl sem hringdi í mig frá þessum. Greinin hjá þessum um málefni eldri borgara voru orð í tíma töluð. Er þessi þarna ekki alveg á móti útlendingum? Þessi þekkir þarfir atvinnulífsins. Siggi frændi hefur mikla trú á þessum en segir að hann þarna hinn sé ekki traustvekjandi.
Menn leggja misjafnlega mikið í baráttuna. Einn auglýsir næstum ekkert en annar rekur skipulagða baráttu með fjölda sjálfboðaliða. Einhverjir eru svo þekktir að þeir þurfa næstum enga auglýsingu. Efsti maður í prófkjörinu í suðurkjördæmi er til dæmis einn allra þekktasti fjölmiðlamaður landsins. Allir vissu hver hann var. Þegar búið er að setja skorður við því að frambjóðendur afli fjár til kosningabaráttunnar batnar auðvitað aðstaða þeirra sem enga kynningu þurfa.
Svo eru það kynjasjónarmiðin. Auðvitað hafa margir þau í huga og vilja tryggja að það halli ekki svo mikið á annað kynið að andstæðingar flokksins þeirra geti notað það til að koma höggi á hann. Hvort ætli sé líklegra að konur njóti þess eða gjaldi?
Það er mjög ólíklegt að margir kjósendur sleppi því að kjósa konu, af því að hún er kona. Sá sem ekki kýs einhvern kvenframbjóðanda sleppir líka mörgum karlframbjóðendum. Af hverju halda menn að konunni sé sleppt af kynjaástæðum en körlunum af einhverjum betri ástæðum?