Hvaða áhrif hafa vaxtabætur á hag íbúðarkaupenda?
Er ekki augljóst að þær létta undir með þeim að greiða vexti og afborgarnir af lánum sínum? Jú það er augljóst og það er ætlunin með vaxtabótakerfinu. En á hinn bóginn er líklegt að þessi ríkisstyrkur hafi einnig áhrif á þá vexti sem íbúðarkaupendum bjóðast. Íbúðakaupendur sem áður voru tilbúnir til að greiða 3% vexti geta kannski greitt 4% þegar þeir eru komnir með vaxtabætur í hendurnar. Og því hærri sem vextirnir eru því hærri verða bæturnar! Vaxtabæturnar enda því í vasa lánveitenda að einhverju leyti, helst lífeyrissjóða og banka.
Hvaða áhrif hafa húsaleigubætur á stöðu leigjenda?
Það blasir við að húsaleigubæturnar létta undir með leigjendum þegar greiðsluseðillinn fyrir leigunni berst um hver mánaðamót. En hvaða áhrif hafa bæturnar á leiguverðið sjálf? Með bótunum er maður sem áður treysti sér til að greiða 150 þúsund krónur í leigu skyndilega tilbúinn til að greiða 180 þúsund krónur. Ætli leiguverð taki ekki mið af þessu og hækki? Setur ekki leigusalinn upp það verð sem menn eru tilbúnir til að greiða? Húsaleigubæturnar enda því í vasa leigusalans.
En hvað menn önnur úrræði, leiðir, leiðréttingar og fikt ríkisvaldsins á húsnæðismarkaði?
Allar beinar tilraunir ríkisins til að auðvelda mönnum að kaupa eða leigja húsnæði eru þessu sama marki brenndar. Hver innspýting fjármagns úr ríkissjóði hefur áhrif á framboð og eftirspurn á húsnæðismarkaði. Að öllu jöfnu auka þess afskipti eftirspurnina og hækka verðið. Ekki síst þau afskipti sem sögð eru auðvelda fólki að kaupa íbúð og alveg sérstaklega fyrstu íbúð.