Sá sem virðir tjáningarfrelsi annars fólks, virðir rétt þess til að setja fram skoðun sem hann er andvígur. Sá sem nýtur tjáningarfrelsis má setja opinberlega fram óvinsæla skoðun. Það er lítið gagn í tjáningarfrelsi sem viðurkennir bara réttinn til að segja það sem er vinsælast hverju sinni.
Ýmsir eru þeirrar skoðunar að sum mál fáist varla rökrædd af neinu viti í þjóðfélaginu. Við sumum skoðunum sé brugðist með offorsi en ekki rökum, uppnefnum en ekki staðreyndum. Þannig segja ýmsir, sem tala fyrir því sem þeir segja vera varkárni í útlendingamálum, að sér sé yfirleitt mætt með fúkyrðum og upphrópunum, þeir séu kallaðir rasistar og hatursfullir fasistar, og svo framvegis. Afleiðingin sé sú, að flestir aðrir forðist að ræða þessi sömu mál með öðrum hætti en hinar talandi stéttir samþykki.
Þeir sem halda þessu fram fengu óvæntan stuðning í vikunni.
Nýr stjórnmálaflokkur, sem lítið hefur farið fyrir, en kallar sig Íslensku þjóðfylkinguna, boðaði til fundar á Austurvelli til að krefjast þess að nýsamþykkt útlendingalög verði felld úr gildi. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins mættu nokkrir tugir manna til fundarins og lítill hljómgrunnur virðist fyrir stefnu flokksins. Slíkur fundur hefði því ekki átt að vekja neina athygli og gleymast strax.
En þá gerðist það, að sögn Ríkisútvarpsins, að Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarfélags Kópavogs, boðaði til annars fundar á sama stað og sama tíma, til þess að mótmæla fundinum sem áður hafði verið boðað til.
Þetta er alveg nýtt í síðari tíma stjórnmálasögu.
Hér verða menn alveg að horfa fram hjá áliti sínu á hvorum hópnum um sig. Menn þurfa ekki að vera sammála öðru fólki, þó þeir vilji að því sé frjálst að boða til útifunda um skoðanir sínar. Og auðvitað er fullkomlega löglegt í lýðræðisríki að halda fund og hvetja til þess að nýsamþykkt lög verði felld brott. Það er svo ekkert að því að stuðningsmenn nýju laganna boði til annars fundar, til að lýsa stuðningi við lögin.
Það sem er ekki í lagi, er að menn boði slíkan fund á sama stað og sama tíma og aðrir hafa áður boðað sinn fund.
Hvar halda menn að slíkt endi? Eiga þeir sem vilja frelsi í lífeyrissjóðamálum og að fólk hafi rétt til að semja án þess að vera í verkalýðsfélagi, að boða til fundar um þau mál á Ingólfstorgi 1. maí? Og reyna svo að yfirgnæfa Gylfa Arnbjörnsson með stærra gjallarhorni? Ef stuðningsmenn Palestínumanna boða fund á Lækjartorgi, eiga stuðningsmenn Ísraelsstjórnar þá að boða annan fund þar á sama tíma og henda bláberjum í Svein Rúnar?
Því veikari sem málstaður andstæðinganna er, því auðveldara ætti að vera að mæta honum með rökum. Því minna sem andstæðingurinn hefur til síns máls, því minni ástæða ætti að vera til að varna honum máls.
En auðvitað er fólki nokkur vorkunn. Það hefur fylgst með íslenskum stjórnmálum undanfarna mánuði og ár og heldur kannski að landinu sé stjórnað með útifundum.