Líkt og menn þekkja hefur borgarstjórninni í Reykjavík verið mjög í nöp við að fólk fari ferða sinna í bíl eða „einkabílnum“ eins og borgarfulltrúar nefna hann gjarnan til að undirstrika að fyrirbærið eigi sér engar málsbætur.
Þetta hefur meðal annars birst í því að bílastæði eru víða fjarlægð að því er virðist að ástæðulausu og byggðin þétt með fuglahúsum, veifum og blómapottum. Annars staðar eru götur látnar grotna niður, þær þrengdar með ærnum kostnaði eða þeim jafnvel lokað sem er auðvitað hin endanlega „lausn“ í bílastæðamálum að mati borgarstjórnarinnar.
Þessi helsta hugsjón borgarstjórnarinnar á sér að vísu undantekningar. Til dæmis í Hörpunni þar sem borgin hrifsaði til sín Íslandsmetið í bílastæðafjölda innanhúss enda sér hver maður að tónleikagestir geta ekki farið í strætó eða á hjóli þótt almennum borgurum með innkaupapoka og leikskólakrakka eða iðnaðarmanni með tæki og tól sé ætlað það.
Annað dæmi en smærra í sniðum má sjá á horni Túngötu og Suðurgötu. Á besta stað í bænum, eins og sagt er.
Þar hafa undanfarið verið tvö stæði á borgarlandi merkt „Sendinefnd ESB.“
En eru Íslendingar ekki löngu hættir í „aðlögunarferlinu“ og ástæðulaust að veita sendinefndinni þessi fríðindi? Eða eru þessi stæði til marks um að vinstri flokkarnir í borgarstjórninni telji að aðildarumsókninni hafi aðeins verið lagt um stund?