Nú eru 55 ár liðin frá því hafist var handa við að reisa Berlínarmúrinn, víggirðinguna sem lokaði milljónir manna inni í kommúnistaríkinu Austur-Þýskalandi. Áratugum saman var Berlínarmúrinn eitt skýrasta táknið um muninn á frjálsu og ófrjálsu þjóðfélagi, Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu.
Frjálst þjóðfélag þarf ekki að múra fólkið sitt inni.
Aðfaranótt 13. ágúst 1961 hóf austur-þýski herinn að loka landamærunum að Vestur-Berlín. Vikurnar á undan höfðu um 1500 manns flúið vestur á degi hverjum og nú höfðu stjórnvöld fengið nóg. Hermenn með alvæpni dreifðu sér um borgarmörkin, vörubílsförmum af steinstöplum og gaddavír var hrúgað upp og í dagrenningu náði víggirtur múr nær þvert yfir borgina. Milljónir manna höfðu verið lokaðar inni í kommúnistaríki, fjarstýrðu frá Moskvu. Múrinn stóð í tæplega fjörutíu ár og upp við hann týndu hundruð Austur-Þjóðverja lífinu, fólk sem reyndi að flýja til vesturs í gegnum kúlnahríð frá samlöndum sínum í varðturnunum.
Það segir mikla sögu um muninn á stjórnarháttum í austri og vestri að stjórnvöldum í Austur-Þýskalandi fannst nauðsynlegt að múra landsmenn inni, svo þeir færu ekki til Vesturlanda, raunverulega múra inni í landinu, með steinsteyptum múr með gaddavír og vopnuðum vörðum.
Vesturlönd þurftu ekki að múra neinn inni.
Nú á dögum sést munur á þjóðfélagsgerðum til dæmis í því þegar menn beita öllum ráðum til að flytjast til Vesturlanda. Það fréttist aldrei af hundruðum Bandaríkjamanna sem troða sér í lítinn gám í von um að geta laumast til Kína til að setjast þar að, óskráðir á vafasömum stöðum. Það er ekki algengt að Evrópubúar safnist hundruðum saman í litla báta og leggi út á Miðjarðarhafið í von um að ná út í björgunarskipin sem Afríkuríkin hafa þar til að bjarga þeim og flytja til fyrirheitna landsins í Afríku.
Það er aðeins rúmur aldarfjórðungur síðan Múrinn hrundi og íbúar Austur-Evrópu losnuðu hver af öðrum undan ógnarstjórn kommúnista. Það er ekki langur tími í sögunni, en þó nægilega langur til þess að stór hópur fólks, sem kominn er á fullorðinsár, man lítið eftir veldi kommúnista í Evrópu eða því hversu hart var tekist á um hugmyndafræði austurs og vesturs. Áhrifamiklir hópar í Evrópu töluðu ætíð gegn því að Vesturlönd efldu varnir sínar. Kommúnistar væru ekki eins hættulegir og menn segðu. Vesturlönd hefðu ekkert að óttast. Þessir hópar tortryggðu allt sem frá Bandaríkjunum kom og gáfu alltaf sem versta mynd af stjórnvöldum þar. Þeir sem vöruðu við hættunni af kommúnistaríkjunum voru útmálaðir sem öfgamenn og harðlínumenn, en þeir sem vildu að Vesturlönd afvopnuðust sem mest sögðust sjálfir vera víðsýnir friðarsinnar.
Alltaf verða til hópar sem vilja draga úr einbeitni og styrk Vesturlanda. Á tímum kalda stríðsins varð þeim ekki að ósk sinni. Það var mikið lán.