Enginn stjórnmálaflokkur hefur sett sig á jafn háan hest gagnvart öðrum flokkum og svonefndir Píratar. Birgitta Jónsdóttir má vart mæla af hneykslun í hvert sinn sem hún tekur til máls á þingi. Hún skammast sín fyrir að vera undir sama þaki og aðrir þingmenn. Maðurinn með taglið er með aðra þingmenn í stanslausri meðferð gegn spillingu og óvönduðum vinnubrögðum og það er engin von um að nokkur þeirra útskrifist.
Nú stendur yfir prófkjör Pírata á netinu vegna alþingiskosninga. Þar mátti vænta kennslustundar í vönduðum vinnubrögðum, gagnsæi og greind.
En þátttakendur í prófkjörinu eru ekki alveg vissir um að svo sé heldur kvarta þeir sáran undan því að netkerfið þurrki út val þeirra, „hendi út“ þeim sem þeir hafa kosið og frambjóðendur „hverfi“ af listanum. Maður sem virðist halda utan um tæknihlið kerfisins biður kjósendur að sýna biðlund á meðan hann reyni að „finna út úr þessu“ því kerfið sé „flókið“ og kannski sé „nettenging slæm“ hjá kjósendum. Umsjónarmaðurinn ætlaði þó að „vera í fríi“ ef marka má annan kjósanda.
Þeim sem tókst að kjósa án þess að forritið léti frambjóðendur gufa upp eiga svo vafalaust eftir að velta niðurstöðunni fyrir sér því aðferðin sem notuð er til talningar í prófkjörinu er ekki fyrir byrjendur. Píratar nota svonefnda „Schulze aðferð“, sem einnig gengur undir heitinu „Schwartz Sequential Dropping“. Nú má þetta vera hin skynsamlegasta aðferð, en ætli hinn almenni kjósandi í prófkjörinu hafi góða hugmynd um hvernig hún virki? Því fer auðvitað víðs fjarri. Þá er spurning hve trúverðug og „gagnsæ“ talningin verður gagnvart kjósendunum.
Hvað ætli þingmenn Pírata myndu kalla þennan gjörning ef aðrir flokkar ættu í hlut?