Árið 2009 hækkaði vinstri stjórnin skatta á bensín langt umfram skatta á Dieselolíu. Það var gert í nafni umhverfisins. Síðan hefur bensínlítrinn borið um 10 krónum hærri skatt á lítrann en Dieselolían. Á árunum þar á eftir breytti stjórnin einnig sköttum á bíla, vörugjöldum og bifreiðagjöldum, bensínbílum í óhag.
Þetta var engin tilviljun. Það var gömul kredda í Evrópusambandinu að Dieselbílar væru umhverfisvænni en bensínbílar. Og þennan misskilning taldi vinstri stjórnin sig þurfa að „innleiða“ á Íslandi.
En á meðan Steingrímur og Indriði voru að umturna öllum eldsneytis- og bílasköttunum hér á landi til að reka fólk úr bensínbílum yfir í Dieselbíla hafði runnið upp fyrir ríkisstjórnum vítt og breitt um Evrópu að mengunin frá Dieselbílum er margfalt meiri og verri en frá bensínbílum.
Barry Gardiner talsmaður breska Verkamannaflokksins hefur til að mynda viðurkennt að það hafi ekki verið rétt að beina fólki í Dieselbíla eins og flokkur hans gerði í ríkisstjórn undir lok síðustu aldar og segir nú að það sé:
…nákvæmlega enginn vafi á því að sú ákvörðun sem við tókum var röng.
Svo langt hefur þessi viðsnúningur gengið að menn ræða í alvöru í stórborgum Evrópu að greiða fólki fyrir að losa sig við Dieselbílana sem það var áður hvatt til að kaupa! Ástæðan er sú að NOx og sótmengun frá Dieselbílunum er margföld á við það sem stafar frá bensínbílunum. Sót og NOx eru hættuleg öndunarfærum manna.
Já hreina vinstri stjórnin hvatti menn til að nota meira mengandi eldsneyti og bíla. Hún lagði hærri skatta á umhverfisvænna eldsneytið.
Þetta er auðvitað sláandi dæmi um að stjórnmálamenn eiga ekki að vera að skipta sér af tækniþróun eða reyna að hafa vit fyrir neytendum með skattalegri mismunun. Bensín- og Dieselbílar eiga bara að bera sömu skatta. Það þarf að lækka bensínskattana niður í sömu krónutölu og Dieselolían ber.
Því miður eru þessir mengunarhvatar vinstri stjórnarinnar enn til staðar í skattalögunum. Íslendingar eru enn með margvíslegum sköttum hvattir til að kaupa frekar Dieselbíl en bensínbíl. Dieselbílar eru almennt um 12% dýrari í innkaupum en sambærilegir bensínbílar og varahlutir í vélar þeirra eru einnig dýrari. Ofan á mengunina bætist því að Íslendingar eru á sóa fjármunum í innkaup dýrari bíla en þeir myndu kaupa ef skattkerfið hyglaði ekki dýru Dieselbílunum.
Að vinda ofan af þessu mengandi og sóandi kerfi er eitt margra verka sem ljúka þarf fyrir þingkosningar í apríl á næsta ári. Það eru ekki nema átta mánuðir til stefnu.