Ríkisútvarpið hefur undanfarin ár verið gagnrýnt fyrir að stofnunin eyddi milljörðum króna í „nýtt“ örbylgjukerfi sem ber tvær sjónvarpsrásir og tvær útvarpsrásir í loftnetsgreiður landsmanna.
Gera má ráð fyrir að kerfið muni kosta 4.000 milljónir. Það var þegar úrelt og algerlega ónauðsynlegt þegar það var tekið í notkun fyrir tveimur árum en kostnaðurinn dreifist á 15 ár.
Flest heimili og fyrirtæki eru þegar tengd netkerfum í gegnum símalínur og ljósleiðara og hafa því takmarkaðan áhuga á loftnetsgreiðum.
Arnar Sigurðsson lýsti þessari ráðstöfun svo í grein í Morgunblaðinu 9. ágúst 2013:
Nýverið skuldbatt sjónvarpsstöðin skattgreiðendur til 15 ára til uppsetningar á nýju örbylgjukerfi til dreifingar á tveimur háskerpurásum stofnunarinnar fyrir hvorki meira né minna en 4 milljarða! Hið „nýja“ dreifikerfi byggist þó á úreltri radíótækni „DVB-T2“ á sama tíma og sjónvarpsheimurinn er að færa sig alfarið yfir á internetið sem staðlaða flutningsleið, þó reyndar nokkuð á eftir viðskiptavinunum. Sú þróun er í dag hraðari en videoleigur í gjaldþrotameðferð og því má segja að skattgreiðendur séu að fjárfesta 4 milljarða í fortíð sem vitaskuld er algerlega galið.
En á þessari sóun á fjármunum skattgreiðenda er þó einn kostur. Það væri hægt að senda út ansi marga þætti þar sem vinstri menn tala við sjálfa sig – Spegla, Víðsjár, Samfélög og Undir áhrifum – fyrir þessar 4.000 milljónir króna.
Flestir ganga þættirnir út að skattgreiðendur eigi að borga meira í öll góðu málin – eins og Ríkisútvarpið og nýtt dreifikerfi þess.