Í síðustu viku mun það hafa gerst að hópur tyrkneskra hermanna reyndi að koma ríkisstjórn landsins og Erdogan forseta frá völdum. Tilraunin fór út um þúfur en nokkur hundruð manns munu hafa látið lífið í einhvers konar átökum.
Atburðir þessir gerðust síðdegis á föstudag og stóðu fram eftir kvöldi.
Fjölmiðlar um allan heim fjölluðu um þá og íslenska Ríkisútvarpið gerði það vitaskuld líka.
Þar var í hádegisfréttum talað við Semu Erlu Serdar sem kynnt var sem stjórnmálafræðingur en ekki var útskýrt að öðru leyti hvers vegna álits hennar var leitað.
Í inngangi viðtalsins við Semu sagði fréttastofan: „Valdaránstilraunin í Tyrklandi í gærkvöldi ber keim af því að geta verið eitt stórt leikrit sett á svið af Erdogan forseta til þess að styrkja stöðu hans heima og heiman. Þetta segir Sema Erla Serdar stjórnmálafræðingur.“ Svo var spilað viðtal við Semu Erlu sem sagði: „Sko Tyrkneski herinn er rosalega stór og skipulagður. Hann er rosalega sterkur. Þetta er næst stærsti herinn í Atlantshafsbandalaginu og það kemur mér rosalega á óvart að herinn mundi standa fyrir tilraun til valdaráns sem væri ekki farsælli heldur en þetta. Þá auðvitað veltir maður fyrir sér hvort að þetta hafi raunverulega verið herinn sem að stóð að baki þessu eða hvort að þetta hafi hreinlega verið bara eitthvert leikrit.“ Fréttamaður spurði þá hvort leikritið hefði verið á vegum Erdogans forseta. Sema Erla svaraði því meðal annars svona: „Maður veltir því auðvitað fyrir sér miðað við einmitt hvernig þetta gerðist allt saman hratt og mistókst svona hrapallega og hvort þetta hafi hreinlega verið eitthvað sem hann hafi sett á svið til þess einmitt að styrkja sína stöðu, hann er gríðarlega umdeildur og það er svo mikið svona, ég meina hann er með eitt markmið og það er að breyta stjórnarskánni þannig að völdin fara frá þinginu yfir til forseta.“
Þetta er furðuleg fréttamennska.
Valdaránstilraun í Tyrklandi er grafalvarlegt mál sem getur haft mikil áhrif á þróun mála í Evrópu, ekki síst á þeim tímum þegar mikil flóttamannabylja herjar á Evrópulönd og þau flest reyna í ofboði að herða útlendingalög sín. Fréttaflutningur af slíkum málum verður að vera vandaður og byggður á bestu fáanlegu upplýsingum hverju sinni.
Það er líklega alltaf þannig, þegar raunverulega mikilvægir hlutir gerast, að einhver setur fram samsæriskenningu. Einhverjir trúa kenningunum og heimsmynd þeirra litast af því. Fjöldi manns trúir því að bandaríska ríkisstjórnin hafi skipulagt árásirnar 11. september og getur rökstutt það af jafnvel meiri krafti en að Neil Armstrong hafi aldrei komið til Tunglsins.
Nú er auðvitað hugsanlegt að valdaránstilraunin í Tyrklandi hafi verið skipulagt leikrit hjá Erdogan. Það getur líka verið að skátahreyfingin og frímúrareglan standi á bak við tilraunina. En ekkert bendir til neins af þessu. Stjórnmálafræðingurinn sem Ríkisútvarpið leitaði til, hafði ekkert til að rökstyðja leikritskenninguna annað en það að tilraunin hefði fljótt farið út um þúfur. Tyrkneski herinn væri rosalega sterkur og rosalega skipulagður og valdaránstilraun hans gæti eiginlega ekki misheppnast.
Er boðlegt að fara í útvarpsviðtal um alvarlegt mál og ýta þar undir slíka kenningu með ekkert annað í höndunum en það að tilraunin hefði mistekist?
Hér ber fréttastofan mikla ábyrgð. Hvers vegna spurði fréttamaður ekki hvort stjórnmálafræðingurinn hefði ekkert fyrir sér um leikritið, annað en að tilraunin hefði mistekist? Hvers vegna var ekki spurt hvort nokkuð væri ósennilegt við að hluti hers geri slíka tilraun sem færi síðan út um þúfur þegar í ljós kæmi að aðrir hlutar hersins kæmu ekki til liðs við hann?
Eftir slíkar spurningar hefði fréttastofan getað metið hvort viðtalið við stjórnmálafræðinginn hefði átt erindi við hlustendur. Án slíkra spurninga var þetta ekki boðlegt.
Það er allt of algengt að fólki sé réttur hljóðneminn og því leyft að fara með alls kyns hugleiðingar fyrir hlustendur, undir því yfirskini að talað sé við „fræðimann“. Ótrúlega oft hefur fræðimaðurinn ekkert að segja annað en skoðanir sínar, án þess að vera krafinn um heimildir eða rökstuðning. Mörg þessara viðtala eiga ekkert erindi í fréttatíma en eru samt send út. Fréttamenn verða að hafa þrek til þess að hætta við að nota viðtal sem reynist gagnslaust.
Vefþjóðviljinn 199. tbl. 20. árg.