Menn velta enn vöngum yfir því hvernig eigi að fjármagna svonefnda „innviði“ fyrir ferðamenn, allt frá vegum til salerna.
Víða gengur þetta þó bara nokkuð vel fyrir sig, líkt og í Bláa lóninu þar sem álagi er stýrt af nákvæmni með bókunum í gegnum netið. Menn bóka fyrirfram og lenda því ekki í troðningi eða í því að vera vísað frá. Og komast líka á klóið.
Víða annars staðar eru ríki og sveitarfélög að þvælast fyrir einkaframtakinu með draumóra um að hægt sé að hleypa öllum stjórnlaust inn á viðkvæm svæði án þess að það hafi kostnað eða aðrar afleiðingar í för með sér, hvað þá að nokkrum verði mál.
Auðvitað eiga þeir sem nýta sér ákveðin svæði í náttúrunni að greiða eigandanum fyrir aðganginn með einum eða öðrum hætti, hvort sem er með aðgangseyri, fyrir bílastæði eða fyrir einhverja aðra þjónustu sem þar er veitt. Skattgreiðendur eiga til að mynda ekki að sitja uppi með reikninga fyrir rekstri á þjóðgörðum þar sem tugir og hundruð þúsund ferðamanna fara um á ári hverju.
Vegakerfið er að mestu leyti rekið af ríkinu og fjármagnað langt umfram kostnað með sérstökum sköttum á bíla og eldsneyti. Hluta af sköttunum er kastað á glæ með því að nota þá til að niðurgreiða innflutning á dýru lífeldsneyti sem hefur neikvæð áhrif á umhverfið og matarverð í heiminum. Skipting vegafjár milli landshluta er svo í litlu samræmi við notkunina enda er þar um pólitíska úthlutun að ræða.
Vefþjóðviljinn 192. tbl. 20. árg.