Vefþjóðviljinn 169. tbl. 20. árg.
Það er stundum sagt að tungumálið eigi undir högg að sækja. Líklega er ýmislegt til í því.
Og kannski eru ekki verstu atlögurnar að íslenskunni utan frá.
Frægasta dæmið um afbökun Íslendinga sjálfra á málinu er notkun orðsins „leiðrétting“ sem var ekki aðeins notað um þjóðnýtingu rétt reiknaðra einkaskulda heldur er það einnig orðið algengt um kröfur ýmissa hópa um launahækkanir.
Annað dæmi um misnotkun hins opinbera á málinu er „lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999“ sem síðast var breytt nú í vor. Lögin eru nú orðin 17 ára gömul og því vart hægt að tala um „tímabundið“ ástand. Að auki er alls ekki um „endurgreiðslur“ ríkisins til kvikmyndaframleiðenda að ræða enda heldur tekur ríkið að sér að greiða útlagðan kostnað og greiðslur framleiðendanna til þriðja aðila. Kvikmyndaframleiðandi greiðir 4 milljónir fyrir þyrluflug og fær svo eina milljón frá ríkissjóði.
Þannig greiddi ríkissjóður kvikmyndaframleiðendum hátt í 100 milljónir króna vegna launa sem þeir greiddu Russel Crowe sumarið 2012. Þetta var á þeim tíma sem vinstri stjórnin lagði bann við því að menn á launum hjá skattgreiðendum hefðu hærri laun enJóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.