Vefþjóðviljinn 168. tbl. 20. árg.
Það er margt sagt í þjóðmálaumræðunni. Ýmislegt er skynsamlegt eða að minnsta kosti rökstutt með skiljanlegum hætti, án mótsagna og án þess að að réttu máli sé hallað. Þannig á umræða að vera, skynsamleg skoðanaskipti sem fara fram með sanngirni.
En verri hliðarnar eru ekki síður áberandi. Stóryrðin sem margir virðast sjá ástæðu til að hafa í frammi opinberlega, jafnvel oft á dag og af hvaða tilefni sem er. Vanþekking og misskilningur eru þar algeng og blasir mjög oft við að fyrirfram skoðanir á einstökum málum eða einstaklingum ráða því gersamlega sem sagt er. Þetta skaðar mjög heilbrigða umræðu, því hófsamara fólk og það fólk, sem frekar skilur aðalatriði mála og hefði viljað ræða málin af yfirvegun og fá skýr svör við sanngjörnum spurningum, lætur sig hverfa þegar lætin byrja, rétt eins og friðsamir gestir hætta að sækja krá þar sem brjótast út slagsmál á hverju kvöldi.
Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er talað við Katrínu Pétursdóttur forstjóra Lýsis hf. Í viðtalinu segir hún umræðu um íslenskt atvinnulíf fara mjög fyrir brjóstið á sér og hafa lengi gert: „Það er alltaf verið að tala niður og kasta rýrð á atvinnulífið. Það er tortryggt í hvívetna og það á sama tíma og við erum að horfa til þess að íslenskt atvinnulíf er að standa sig alveg gríðarlega vel. Það má til dæmis nefna sjávarútveginn þar sem við erum með fyrirtæki á heimsmælikvarða. Íslendingar eru að standa sig helmingi betur en nágrannaþjóðir sínar í umhirðu og fullnýtingu sjávarafurða. Við erum að nýta 75-78% af aukaafurðum samanborið við til dæmis 25-30% í Noregi. Það er verið að gera svo vel víða í íslensku atvinnulífi og mér finnst það ekki njóta sannmælis. Almennt finnst mér að það þurfi að koma til meiri hvatningar og viðurkenningar á því sem vel er gert á þessu sviði. Atvinnulífið er algjörlega órjúfanlegur hlutur frá heimilum, almenningi og byggð í þessu í landi og mér finnst oft skorta skilning á þeirri tengingu.“ Við bankahrunið árið 2008 hafi umræðan versnað: „Það hreiðraði um sig einhvers konar tortryggni og neikvæðni í garð atvinnulífsins.“
Mikið er til í þessu hjá Katrínu. Ótrúlega margir virðast ekki skilja að frjálst atvinnulíf er órjúfanlegur þáttur verðmætasköpunar í landinu. Án fyrirtækjanna, stórra og smárra, yrði engin velmegun í landinu. Fjöldi fólks virðist fyrst og fremst sjá óvini í fyrirtækjunum. Þau þurfi að skattleggja sem mest. Þau þurfi að greiða sífelld leyfisgjöld og eftirlitsgjöld. Þau þurfi að kosta rekstur ýmissa stofnana fyrir ríkið. Um þau þurfi að gilda sífellt flóknari reglur. Það þurfi að þrengja að frelsi þeirra á sem flestum sviðum. Og það þurfi auðvitað að vera rétt kynjahlutföll í stjórnum þeirrra.