Vefþjóðviljinn 167. tbl. 20. árg.
Þótt skattgreiðendur reki sérstaka Orkustofnun með tugum starfsmanna fá þeir einnig reikninga fyrir Grænu orkunni og Orkusetri sem eru einskonar áróðursstöðvar fyrir meiri mengun og auknum kostnaði við samgöngur.
Orkustofnun, Græna orkan og Orkusetur hafa látið sér vel líka að landsmenn séu með skattkerfinu hvattir til að kaupa frekar dýrari og meira mengandi Dieselbíla en bensínbíla. Þá hafa öll apparötin stutt það dyggilega að ríkissjóður niðurgreiði innflutning á dýru lífeldsneyti sem blandað er í bensín og Dieselolíu með þeim afleiðingum að eyðsla eykst og þar með innflutningur eldsneytis. Önnur áhrif eru þau að brjóta þarf nýtt land undir ræktun matjurtanna sem hefur í för með sér skógareyðingu og eyðileggingu votlendis sem eykur losun gróðurhúsalofttegunda. Ef ekki finnst nýtt land til þess arna er hætt við að matarverð hækki sem hefur slæm áhrif á þá sem síst skyldi.
Nýjasta dæmið um umhverfisfjandsamleg viðhorf þessara ríkisstofnana er grein eftirSigurð Inga Friðleifsson framkvæmdastjóra Orkuseturs í Fréttablaðinu á föstudaginn. Þar leggur hann milljarðakostnað og mengun sem íblöndun lífeldsneytis hefur haft í för með að jöfnu við það þegar Íslendingar hófu að veita heitu vatni í hús til þvotta og kyndingar og spöruðu við það stórfé í olíu- og kolakaupum auk hins augljósa ávinnings fyrir loftgæði í þéttbýli þegar kolareykurinn hvarf.
Þessi dæmi eru augljóslega eins og svart og hvítt og langt seilst að telja hitaveituna á nokkurn hátt sambærilega við lífeldsneytið.